151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:19]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá langar mig til að snúa að strandveiðunum. Við gerðum umtalsverðar breytingar árið 2018 og þær voru aldeilis ekki ljúfar og runnu ekki þægilega í gegn. Margir töldu að verið væri að skrúfa fyrir strandveiðar á svæðum um landið. En svo kemur það í ljós að það hefur bara fallið í góðan jarðveg og það sem Byggðastofnun tók saman um hvernig tekist hefði til kom bara mjög vel út. Þess vegna er ég svo hissa á því að við ætlum að hverfa til fyrri aðferðafræði í því, þ.e. óöryggis og ólympískra veiða, eins og kom fram í máli hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar. Mig langar bara að skerpa aðeins á þeim svörum hjá ráðherra, hvort hann haldi að það sé til bóta að fara til baka í þessum málum.