151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi strandveiðarnar þá er ég ekki sammála því að það sé til bóta að fara til baka til allra þeirra þátta sem við breyttum 2018. Margt í þeim breytingum er afspyrnugott og leiddi til aukins öryggis þeirra sem stunda þennan atvinnuveg, þó að við nefnum bara það eitt. Það er hins vegar markmið strandveiða að styrkja byggð og búsetu um allt land, klárlega, og við höfum haldið mjög stíft utan um þær í því ljósi. Við höfum á sama tíma aukið heimildir í strandveiði. Þá skýtur það skökku við að breytingarnar sem við gerðum, um að gera þetta að einum potti yfir allt landið, leiða til þess að á sumum svæðum hefur orðið samdráttur í veiðum þrátt fyrir auknar veiðiheimildir. Það var enginn tilgangur með strandveiðikerfinu að færa áherslurnar í atvinnu í þessum sjávarbyggðum til á milli landshluta og ég er að kalla eftir því að það verði yfirfarið.