151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér í þessi sjávarútvegsmál enda eru þau ofarlega í huga mínum og hafa verið lengi. Ég verð fyrst að segja að ég er ekki yfir mig hrifin af málinu en tel að við getum gert ýmsar lagfæringar á því í atvinnuveganefnd ef samstaða næst um það og ég treysti því að hæstv. ráðherra komi að því að vinna þetta mál með okkur þingmönnum.

Það eru vissulega fyrirvarar á frumvarpinu hjá okkur í Vinstri grænum. Ég kem kannski fyrst að því máli sem hæstv. ráðherra og hv. þingmaður fjölluðu um áðan í andsvari en það eru strandveiðarnar. Mikil vinna var lögð í að koma strandveiðum í betra horf, tryggja betur fyrirsjáanleika og jafnræði og tryggja öryggisþáttinn með því að setja þær í dagakerfi. Það tók tvö ár að koma þeim í það horf sem þær eru núna, þ.e. 48 dagar í strandveiðum, 12 dagar í hverjum mánuði og hvorki róið föstudag, laugardag né sunnudag. Það fyrirkomulag náðist þvert á flokka og reynslan hefur sýnt að það hefur komið ágætlega út. Þeir sem höfðu mestan fyrirvara á þessu kerfi og töldu að þeir myndu koma illa út úr því hafa tekið það til endurskoðunar og vilja halda því áfram með þeim fyrirvörum að þessir 48 dagar verði tryggðir hvað varðar aflaheimildir til veiðanna.

Mér finnst það vera verkefni okkar í atvinnuveganefnd, sem bárum málið fram í upphafi, að tryggja að aflamagn verði tryggt í þessa 48 daga. Þess vegna finnst mér ekki gott ef festa á þetta hlutfall á skiptingu á aflamagni inn í frumvarpið. Það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki innan fiskveiðiársins á milli þeirra þátta sem eru í þessum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, svo að það geti færst á milli ára eftir því hvernig veiðist. Hæstv. ráðherra nefndi að á sumum svæðum hefði ekki veiðst sama magn og einhver ár á undan en við getum auðvitað aldrei tryggt með einhverju kerfi að hver bátur eða útgerð veiði sambærilegt magn ár eftir ár. Breyturnar í því máli eru fiskigengd og viðkomandi sjómaður. Það rokkar auðvitað til eftir veðrum, fiskigengd og aflabrögðum hvers og eins. Stærsta málið er að allir, hvar sem þeir búa á landinu, geti róið 12 daga í hverjum mánuði þessa fjóra mánuði og að strandveiðipottinum séu tryggðar nægar aflaheimildir til að svo verði. Þá þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu.

Strandveiðarnar eru það kerfi þar sem nýliðun getur orðið í dag. Þær eru í raun og veru eini glugginn inn í fiskveiðistjórnarkerfið og því mikilvægt að varðveita það að þessi gluggi haldist áfram opinn fyrir þá sem hafa hugsanlega möguleika á að byggja sig smátt og smátt upp með því að komast yfir aflaheimildir og byggja sig svo enn frekar upp og nýta það sem er í boði, hvort sem það er að vera samhliða á grásleppuveiðum eða þegar makríllinn gefur sig við strendur landsins, að nýta það sem hægt er að veiða í þeim leigupotti ríkisins. Strandveiðikerfið stendur okkur Vinstri grænum nærri enda vorum við upphafsmenn þess á sínum tíma, 2009. Við munum leggja okkur öll fram við að efla það og styrkja, að spóla ekki til baka heldur styrkja það enn frekar. Við viljum sjá auknar aflaheimildir fara inn í kerfið því að það hefur sýnt sig að það styrkir þessar byggðir og hefur samlegðaráhrif við annað í sjávarútvegi og aðra atvinnu á þeim stöðum sem þar heyra undir.

Það er líka verið að skoða uppstokkun á almenna byggðakvótanum. Ég er alveg sammála því að stokka þurfi upp þennan almenna byggðakvóta. En það er spurning um leiðir í þeim efnum, hvernig við getum gert það með sem skilvirkustum hætti þannig að það nýtist þeim sem á þurfa að halda. Það hefur verið raunin í gegnum árin að byggðakvóti er jafnvel að lenda í höndunum á stórútgerðum með einum eða öðrum hætti. Auðvitað var tilgangur byggðakvóta ekki sá að hann lenti í höndum á stórútgerðum sem hefðu nægar aflaheimildir heldur hjá þeim sem þyrftu á honum að halda, þyrftu stuðning vegna þess að viðkomandi byggðir hefðu farið illa út úr kvótakerfinu. Tilgangurinn var að stuðla að því að þessar minni sjávarbyggðir fengju þennan stuðning frá ríkinu. Í þessum hluta kerfisins eru vissulega undir miklar fjárhæðir. Þess vegna skiptir máli að stuðningurinn lendi ekki eftir einhverjum krókaleiðum í höndum á stórútgerðum sem hafa enga þörf fyrir stuðning af hálfu ríkisins. Þess vegna sé ég fyrir mér að það þurfi að reyna að einfalda þetta, hafa það gegnsætt, miða við ákveðin veiðarfæri og ákveðna tegund af stærðarflokkum á bátum og tryggja að það sé eins gegnsætt og hægt er með ívilnun, hvort sem það er ívilnun við löndun eða hvað. Það megi ekki njörva þetta niður til jafn langs tíma og er verið að ræða í þessu frumvarpi. Það var gott að hæstv. ráðherra kom inn á að endurskoða mætti þann árafjölda. Ég tel rétt að við skoðum það í nefndinni.

Núna er fyrirkomulagið þannig að á þriggja ára fresti er þingsályktunartillaga og Alþingi fjallar um með hvaða hætti ráðstafanir á almenna byggðakvótanum eru. Á að festa þetta fram yfir heilt kjörtímabil? Auðvitað getur ýmislegt gerst á þeim tíma og þá væri búið að njörva þetta niður í samningum við einhverja aðila. Menn hætta útgerð, menn falla frá og hvað verður þá um þessa samninga? Ganga þeir kaupum og sölum? Ekki viljum við að þessi félagslegi hluti fiskveiðistjórnarkerfisins fari á sama veg inn í niðurnjörvað kvótakerfi með framsali. Ég held að enginn sé staddur þar. Ég vona bara að menn séu ekki þar staddir heldur hugsi þeir sér þennan almenna byggðakvóta sem stuðning hverju sinni, sem getur auðvitað verið mjög mismunandi, bæði hvað varðar byggðarlög og þá aðila sem myndu falla undir það að nýta sér hann. Hann hefur verið mjög umdeildur og togstreita um hvernig honum hefur verið úthlutað, bæði innan sveitarfélaga og af hálfu ráðuneytis í gegnum Fiskistofu. Ef við erum að endurskoða þann hluta kerfisins þurfum við að lenda því þannig að leikreglur séu skýrar, það sé gegnsæi og þessi mikla ívilnun í formi stuðnings á ókeypis aflaheimildum lendi í höndum á þeim sem eru með afla sínum að styrkja viðkomandi byggðir, að það sé byggðafesta og stuðningurinn renni til þeirra sjávarbyggða sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu og þurfa virkilega á honum að halda.

Það má margt um málið segja. Ég held að umdeilt mál, eins og hefur verið komið inn á varðandi rækju- og skelbætur, hafi verið skoðað af mörgum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum í gegnum árin og menn hafi einhvern veginn aldrei náð að lenda því. En einhvern veginn verður að klára málið í eitt skipti fyrir öll því að bætur eru ekki hugsaður til eilífðarnóns heldur verður að ljúka málinu með sanngjörnum hætti. Auðvitað hefur þetta allt fordæmisgildi til framtíðar og þess vegna þarf að vanda það vel. Ég ætla ekki að dæma um það fyrir fram hvort akkúrat þessi útfærsla standist alla skoðun. Við sjáum bara til hvernig umsagnir verða í þeim efnum og hvort þetta sé rétta lendingin eða hvort við tökum einhvern snúning á því ásamt öðru sem hér er á ferðinni. Í mínum huga er fyrirkomulag á strandveiðum stærsta málið. Mér finnst ekki koma til greina að hreyfa við því heldur frekar að styrkja það en ekki að spóla til baka. Það hefur sýnt sig og stóð upp úr í skýrslu Byggðastofnunar, sem var mjög ítarleg og atvinnuveganefnd lét vinna fyrir sig, að menn vildu þennan sveigjanleika, hann þyrfti að vera innan kerfis svo að hægt væri að tryggja aflaheimildir til 48 daga, hvort sem hann kæmi úr almenna byggðakvótanum, úr línuívilnun eða hvað það væri. En ég held að mjög brýnt sé að hafa þennan möguleika.

Mér finnst ekkert útilokað að horfa til þess að einhvers lags samningar verði gerðir með tilliti til nýsköpunar og nýrrar hugsunar í þeim efnum. Við vitum að sveitarfélög hafa verið að prófa sig áfram með útfærslu á byggðakvóta. Ég held að það sé ekkert óvitlaust að horfa til þess fyrst og fremst að hann skili sér til þeirra sem eru virkilega að vinna með að styrkja byggðafestu, nýliðun og auka verðmætasköpun í viðkomandi sjávarbyggðum.

Ég er bara áhugasöm um að vinna með þetta mál og vonandi getum við klárað það og gert breytingar á því eins og ég hef talað um hér. Við sjáum til hvernig það gengur en ég treysti því að hæstv. ráðherra verði opinn fyrir því að reyna að ná sem bestri sátt og samkomulagi í þessu stóra máli sem skiptir marga mjög miklu máli. Það þarf að standa vörð um að vel sé staðið að verki. Það þarf líka að hugsa um hina litlu í þessum kerfum. Við megum ekki gleyma því að standa vörð um það smáa því að það skiptir máli fyrir mörg byggðarlög.