151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi það í ræðu minni áðan að við fengum Byggðastofnun til að gera skýrslu og úttekt á strandveiðum og hvernig til hefur tekist. Sumarið 2018 var tilraunaverkefni og sumarið 2019 var kerfið fest í sessi. Komið hefur fram að þessir aðilar óttuðust að þeir færu halloka við þessar breytingar, en mikill meiri hluti var síðan mjög ánægður með breytingarnar eftir þessi tvö sumur. Ég hef séð töflu yfir aflabrögð báta, sem eru auðvitað mismunandi, þetta er ekki kvótakerfi, maður getur ekki tryggt að sami bátur fái sama afla ár eftir ár. Það fer eftir fiskigengd og það fer eftir aflabrögðum viðkomandi og veðurfari. Þessar þrjár breytur stjórna því vegna þess að þetta eru veiðar sem ráðast af því hvað hver og einn getur aflað í hverjum róðri og er mismunandi. Hámarkið er 725 kíló af afla á dag. Við þurfum að horfa til þess. Það sem stendur upp úr og hefur verið rætt á vettvangi þessara samtaka, Landssambands smábátaeigenda, er að meiri hlutinn kallar eftir því að tryggja afla í 48 daga og þá séu menn mjög sáttir, þá geti menn líka róið þegar það hentar og þurfi ekki að fara út í leiðindaveðri og öðru þvíumlíku. Svo ég mótmæli því (Forseti hringir.) að þetta hafi komið illa út fyrir ákveðnar byggðir en vil fylgja því fast eftir að það þurfi að tryggja afla í þessa 48 daga.