151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það blasir við að við erum algjörlega ósammála í þessu máli. Auðvitað er það þannig að það er ekki hægt að tryggja einstökum sjómanni eða einstökum útgerðarmanni tiltekinn afla, en ég kalla eftir því að nefndin horfi á hvaða áhrif kerfin hafa á byggðirnar þannig að kerfið sem við búum til feli ekki í sér tilfærslur milli byggðarlaga, hvorki á strandveiðum né öðrum aðgerðum þarna, einhverjar sjálfkrafa tilfærslur eftir að kerfunum er komið á. Úttektin sem hv. þingmaður vísar til, ef ég man rétt átti hún við strandveiðitímabilið 2018 og 2019. Við höfum ekki úttekt á strandveiðitímabilinu 2020 þar sem varð einmitt sú tilfærsla sem sjómenn og sveitarstjórnir og forsvarsmenn byggðarlaga höfðu áhyggjur af að breytingin gæti haft í för með sér, þótt ýmislegt í breytingunni sem gerð var 2018 hafi verið til góðs.

Þá vil ég í þessu seinna andsvari spyrja hv. þingmann um úttektina, hvort það sé til einhver úttekt fyrir árið 2020. Og síðan: Hvað á þingmaðurinn við þegar rætt er um að tryggður sé viðbótarkvóti fyrir strandveiðarnar eða viðbótaraflaheimildir? Hvaðan á að taka þær aflaheimildir þegar búið að fastsetja hlutföllin í mismunandi kerfi? Á þá að úthluta meiru en ráðlagt er? Hvaðan á að taka þær aflaheimildir?