151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég væri algjörlega á móti því að fastsetja aflaheimildir eins og hér er gert. Það er ekki þannig í dag að það sé fastsett. Nú er verið að fastsetja þetta hlutfall, sem ég tel vera mjög slæmt, þ.e. að verið sé að njörva það niður. Það þarf að vera sveigjanleiki í þessu kerfi. Þetta er félagslegt kerfi og það þarf að vera sveigjanleiki. Í dag er hægt að færa almenna byggðakvótann á milli ára, en frá því að strandveiðar hófust 2009 hafa menn ekki alltaf náð því sem ætlað var í þann pott og það er ekki hægt að færa það á milli ára. Þess vegna tel ég að það þurfi að vera sveigjanleiki. Það hefur verið hægt að færa það í strandveiðipottinn sem ekki hefur gengið út í línuívilnun. En það þarf að vera að sveigjanleiki og ekki niðurnjörvað í þessu kerfi. Ég er mjög hlynnt því að bæta enn frekar í strandveiðar af því að það hefur sýnt sig að þær stuðla að byggðafestu og efla byggðirnar. Þess vegna mun ég leggja alla áherslu á það.

Hv. þingmaður talar um að verið sé að færa aflaheimildir af einu svæði yfir á annað. Ég hef séð tölur um það að aflabrögð og aflahæstu bátar í strandveiðum hafa t.d. verið í kjördæmi hv. þingmanns, sem er bara mjög gott. En áður en við breyttum þessu kerfi var ekki mikið jafnræði á milli landshluta. Sumir landshlutar fengu sex daga í mánuði meðan aðrir fengu kannski 20 daga eða fleiri. Var jafnræði þá? Nei. Þess vegna tel ég að þetta sé jafnræði. En veðurfar mun alltaf stýra veiðum og fiskigengd og einnig aflabrögð hvers og eins.