151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar og hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir ræðuna. Ég var í öðru húsi, kom hérna hlaupandi en heyrði mestan part allt saman. Það er margt í þessu máli sem er til mikilla bóta. Annað þarf að laga í meðförum nefndarinnar. Mig langar að koma að strandveiðunum, ég heyrði þingmanninn tala um að hún hefði áhyggjur af því að við værum að stíga skref aftur á bak. Við í nefndinni unnum með fyrirkomulag strandveiða fyrir 2018 og það var mikil samstaða og góð sátt um að þetta yrði gert eins og það varð síðan og kom bara prýðilega vel út. Strandveiðikerfið hefur verið það veiðifyrirkomulag í gegnum árin sem hefur fært okkur þokkalega sátt um fiskveiðar við Ísland, myndi ég segja, en það má alltaf laga og betrumbæta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, í sambandi við þessar áhyggjur sem ég deili með þingmanninum um það að vera að fara aftur í svæðisskiptingu, og nú er verið að taka úr línuívilnun og færa yfir í almenna byggðakvóta og slíkt: Væri ekki betra að strandveiðarnar fengju meira í sinn hlut svoleiðis að við getum haldið áfram að hafa það kerfi eins opið og það hefur verið síðan 2018? Þá væru meiri líkur til þess að þessir 12 dagar í mánuði héldu allan hringinn í kringum landið.