151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ágætt að hv. þingmaður minnist á það að vinnan við strandveiðarnar hefur verið þverpólitísk. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að varðveita þann árangur sem hv. þingmenn, þvert á flokka og með mismunandi tengsl í mismunandi landshlutum, hafa unnið saman og reynt að ná utan um þetta með sem bestum hætti. Ég sé það núna að við eigum í raun og veru eftir að binda endahnútinn á þetta með það að tryggja afla í 48 daga. Það er í raun og veru það eina sem stendur út af. Þetta er eins og að vera í einhverju slönguspilinu og allt í einu fer maður bara niður allan stigann og er kominn á byrjunarreit. Ég vil ekki að þessi mikla vinna, þvert á flokka og með tengingu við alla landshluta, verði til einskis unnin. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt, eins og ég hef verið að segja, að auka aflaheimildir í strandveiðar. Eins og hv. þingmaður nefndi held ég að það sé leið til að skapa miklu meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið að þessir litlu aðilar og nýliðar og minni sjávarpláss hafi möguleika á að hefja útgerð, þótt smá sé, hafi þessa möguleika í stöðunni. Það er ekkert sjálfgefið ef við förum að gera þetta allt miklu erfiðara og opnum á, eins og er í þessu frumvarpi, bara alla daga. Þá held ég að fyrst fari að koma svokallaðir hobbísjómenn um helgar sem vinna kannski einhverja aðra vinnu. Það er margt í þessu sem mér finnst að megi ekki verða að veruleika.