151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:49]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mín hugsun í þessa átt er að strandveiðar geti verið til jafns hringinn í kringum landið og af því að við erum að tala um byggðafestu og allt slíkt, þá hafa þær veiðar að mínu mati skapað meiri byggðafestu og heildarsátt í kringum landið heldur en oft og tíðum hinn almenni byggðakvóti. Þess vegna var ég að nefna hann. Ég myndi vilja sjá meira sett í strandveiðarnar heldur en endilega í byggðakvótann þótt hann mætti vissulega fá meira, en við erum bara með þessi 5,3% af aflahlutdeild til að spila úr. Þess vegna kom ég með þessa spurningu. En ég hef trú á því, af því að okkur hefur gengið vel í nefndinni að vinna að þessum málum til þessa, að okkur muni farnast vel áfram. Ég inni þingmanninn aftur eftir því, ég heyrði ekki hvort hún svaraði mér beint um þá hugmynd að bæta meira í strandveiðarnar frekar en byggðakvótann, af því að það hefur ekki verið almenn sátt í gegnum árin með hann þótt hann sé vissulega hugsaður til þess. Nú er tvöfaldur kvóti þar, bæði almennur og sérstakur byggðakvóti til brothættra byggða þannig ég er alveg sammála því að færa þá vinnu meira til Byggðastofnunar en hefur verið. En ég myndi vilja fá þingmanninn til að svara þessari spurningu.