151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

fjarskipti og þjóðaröryggi.

[10:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera varðandi innleiðingu á svokallaðri 5G-fjarskiptatækni, sem hugsanlega er keyrð af kínverska fjarskiptarisanum Huawei? Flestar þjóðir sem við berum okkur saman við tengja eðlilega þjóðaröryggismálin við innviði eins og fjarskipti. Hver er áhersla ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Og hver eru viðbrögð utanríkisráðherra í þessu máli? 5G-tæknin er að fara á fullt hér á landi og erum við alveg á sama stað og aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við, hvort sem það eru Norðurlöndin, aðrar Evrópuþjóðir eða önnur vestræn lönd, þ.e. við erum að hugsa um öryggi þegna okkar. Það fer ekki á milli mála að fjarskipti eru líka öryggismál. Það liggur alveg fyrir og okkur ber skylda til að gæta að öryggi okkar fólks, þegna okkar.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að við höfum verið svolítið bláeygð þegar kemur að netöryggismálum. Ef við lítum til þeirra landa sem við berum okkur jafnan saman við er ljóst að fjölmörg lönd hafa lagt bann við kínversku 5G-tækninni. Þar má nefna Bandaríkin, Ástralíu, Japan, Taívan, Nýja-Sjáland og Bretland. Þessi lönd hafa lagt miklar hömlur á 5G-tækni Huawei. Noregur, Danmörk, Þýskaland og Frakkland virðast stefna að því að hafa mjög varann á sér.

Á að leyfa 5G-tæknina frá Huawei á Íslandi eða ekki? Hvenær er þess að vænta að íslensk stjórnvöld taki ákvörðun um þessi efni og hvenær megum við búast við frumvarpi þar sem séð verður til þess að öryggi fjarskipta verði tryggt gagnvart þessu? Munum við fylgja hinum þjóðunum í því að tryggja að Huawei-tæknin, 5G, verði ekki notuð nema það sé 100% öruggt og tryggt að þeir geti ekki notað hana í annarlegum tilgangi?