151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

fjarskipti og þjóðaröryggi.

[10:44]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka aftur hv. þingmanni. Það kom kannski ekki nógu skýrt fram hjá mér en það er frumvarp fyrir þinginu þar sem m.a. er tekið á þessum þjóðaröryggisþætti þegar kemur að fjarskiptamálunum og einnig 5G, þingið er að fjalla um þau mál. Það sem hv. þingmaður vísaði í varðandi Hong Kong þá er það alveg skýrt, og hefur komið skýrt fram hjá okkur, alls staðar þar sem hægt er að koma því á framfæri, að við styðjum auðvitað mannréttindi í Hong Kong. Það lá alveg fyrir þegar samningar sem hv. þingmaður vísaði til voru gerðir að þá var talað um „eitt land, tvö kerfi“. Það liggur alveg fyrir og við þekkjum það út af mótmælum að þar hefur fólk áhyggjur af því að verið sé að brjóta þau réttindi. Við höfum komið mjög skýrum skilaboðum áleiðis um að það sé eitthvað sem við líðum alls ekki, hvorki þar né annars staðar.