151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

nýsköpun og klasastefna.

[10:53]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eitt af því sem við horfum til sem lausn á viðfangsefnum nútímans er auðvitað nýsköpun. Nýsköpun er hverri þjóð mikilvæg og mikilvægt að vel sé stutt við hana af hálfu ríkisins, enda eins og hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hefur sýnt fram á er mikilvægt að ríkið taki virkan þátt í nýsköpun og stuðningi við hana. Fyrir um fimm árum sótti ég stóra alþjóðlega klasaráðstefnu í Strassborg og má segja að augu mín hafi opnast fyrir því magnaða verkfæri sem samstarf og klasasamstarf getur verið. Á Íslandi höfum við dæmi um klasa sem hafa skilað góðum árangri og má þar nefna Íslenska ferðaklasann, Íslenska sjávarklasann og Orkuklasann, svo fáir séu nefndir. Ég fagnaði því mjög frumkvæði hv. þm. Willums Þórs Þórssonar þegar hann ásamt fleirum, þar á meðal þeirri sem hér stendur, lagði fram þingsályktunartillögu um að fela ráðherra að móta klasastefnu fyrir Ísland. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á þá klasastefnu og sat ég ásamt nokkrum hv. þingmönnum í atvinnuveganefnd vinnufund í síðustu viku þar sem verið var að fjalla um klasastefnuna. Er óhætt að segja að sú hugmyndafræði sem þar er verið að vinna með sé spennandi og ýmis tækifæri sem felast í því að fylgja stefnunni vel eftir, enda er klasasamstarf í eðli sínu verkfæri til að efla nýsköpun bæði almennt og í starfandi fyrirtækjum, sem er ekki síður mikilvægt.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær mun klasastefnan verða tilbúin? Hvernig stendur til að auka alþjóðlegt rannsóknar- og klasasamstarf fyrirtækja í nýsköpun og hefðbundnari greinum? Að lokum og það er líklega mikilvægasta spurning dagsins: Hefur ráðherra tryggt fjármagn til að fylgja stefnunni eftir og verkefnum hennar eins og þarf til að láta þetta mikilvæga verkefni verða að veruleika?