151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

nýsköpun og klasastefna.

[10:57]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að það sé stutt í að stefnan komi en ég verð að nýta tækifærið og skora einfaldlega á hæstv. ráðherra að tryggja það fjármagn sem þarf til að hrinda stefnunni í framkvæmd þannig að vel sé. Enda er þarna tækifæri til framtíðar og það þarf að tryggja að verkefnum stefnunnar verði fylgt eftir. Það þarf ekki einungis fjármagn til þess heldur þarf líka skýran ramma. Þetta þarf að vera.

Mig langar aðeins að venda kvæði mínu í kross og spyrja hæstv. ráðherra um stöðu mála vegna þess atvinnuástands sem uppi er í landinu. Nýsköpun er auðvitað mikilvægur hluti af því að byggja upp til framtíðar en það er einnig mikilvægt að styðja við hefðbundið atvinnulíf sem sumt hvert berst í bökkum. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hér í síðara andsvari: Hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu til að styðja við atvinnulífið til að halda sjó á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir? Er einhver áætlunargerð í gangi eða hefur verið unnin einhver sviðsmyndagreining um stöðuna og hvernig lítur hún þá út? Það er nefnilega ekki nóg að hlusta, herra forseti. Það þarf líka aðgerðir.