151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

húsnæðiskostnaður.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að með því að ferðamenn hættu að koma til Íslands hafi orðið mjög mikil breyting á húsnæðismarkaði. Það sáum við í framboði af minni íbúðum. Fyrir örfáum dögum las ég viðtöl við iðnaðarmenn sem hafa verið mjög uppteknir við að gera upp þessar Airbnb-íbúðir, eins og þær heita, sem fóru annaðhvort til leigu eða sölu. Það er alveg ábyggilegt að þar hefur orðið mikil breyting.

En mér finnst skipta miklu máli þegar við erum að tala um leigumarkaðinn, að horfa til þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem eru á leigumarkaði óskar sér helst að eignast húsnæði. Þess vegna hefur mér þótt skipta mjög miklu máli að við leituðum leiða til að lækka þröskuldinn fyrir fyrstu íbúðarkaupendur. Það hefur tekist ágætlega á undanförnum misserum og að sjálfsögðu hafa þar vaxtalækkanir Seðlabankans skipt miklu. En aftur; lögmál markaðarins taka dálítið við og eftir því sem vextir lækka meira og kaupgeta fólks vex, þá vex spennan á markaðnum. Ef framboðshliðin er í ólagi þá hækkar verðið mjög hratt. Það er það sem við höfum séð. Það er ákveðið áhyggjuefni.