151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég óskaði eftir þessari sérstöku umræðu í dag til að fá tækifæri til að spyrja hæstv. forsætisráðherra nokkurra spurninga um stöðu stjórnarskrármála. Eins og kunnugt er hefur ákveðin vinna átt sér stað undir forystu hæstv. forsætisráðherra á þessu kjörtímabili sem að hafa komið formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Af fjölmiðlaumfjöllun má ráða að þess sé að vænta að einhver afrakstur þeirrar vinnu komi til umfjöllunar í þinginu á næstunni. Af þeim sökum vildi ég, áður en við förum að ræða efnislega um einstakar tillögur sem gerist væntanlega þegar hæstv. forsætisráðherra flytur þær í þinginu, að við tækjum stutta umræðu hér um stöðu þessara mála, m.a. út frá því hvaða tillögur hæstv. forsætisráðherra hyggst í fyrsta lagi leggja fyrir þingið, hvað er í pakkanum og hvað ekki, miðað við það sem verið hefur til umræðu á kjörtímabilinu. Í öðru lagi vildi ég inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvernig viðhorf flokka hefði birst í samstarfshópnum sem unnið hefur að þessum málum, m.a. út frá því hvaða væntingar við getum gert okkur um samstöðu um einstök atriði í því sambandi. Og svo er hér í þriðja lagi einföld spurning um það hvenær vænta megi þess að frumvörpin komi til meðferðar hér í þinginu og þá kannski í framhaldinu hvernig hæstv. forsætisráðherra sjái fyrir sér framhald mála.

Ég vildi áður en lengra er haldið rifja upp að sjálfur hef ég tekið þátt í umræðum um stjórnarskrármál oft og iðulega, bæði á þessu kjörtímabili og áður, og hef verið þeirrar skoðunar að sú vinna sem forsætisráðherra hefur haft forgöngu um hafi verið skynsamleg að því leyti að hún hefur miðast við að taka fyrir ákveðna afmarkaða þætti stjórnarskrárinnar og undirbúa tillögur sem lúta að þeim. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri miklu vitrænni vinnuaðferð við þau mál en að ætla sér að breyta öllu í einu, borða fílinn í einum munnbita eins og stundum hefur verið lagt til hér á þingi og annars staðar. Ég hef verið þeirrar skoðunar að vinnulagið væri að því leyti skynsamlegt og í réttum farvegi.

Nú veit ég hins vegar ekki hvernig framhaldið verður hér í þinginu, hvort hægt verður að ljúka þessu á þeim forsendum sem hæstv. forsætisráðherra leggur upp með. Ég held að samt sé tilefni til að rifja það upp eða minna á það að við stjórnarskrárbreytingar þarf auðvitað að fara fram af meiri varfærni en við aðrar lagabreytingar. Hér er um að ræða grundvallarlög landsins sem öll önnur löggjöf byggist á og tilraunastarfsemi og ævintýramennska í þeim efnum er auðvitað ekki af hinu góða. Þess vegna verða menn að hafa í huga nokkur lykilatriði í sambandi við undirbúning og afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga. Það þarf að vanda til verka. Í fyrsta lagi þarf að meta hverju þarf að breyta, hvernig er best að breyta því og hvaða afleiðingar breytingarnar hafa. Í öðru lagi er skynsamlegt að áfangaskipta verki þannig að hægt sé að einbeita sér að tilteknum þáttum í einu frekar en að vera með of mikið undir. Í þriðja lagi er auðvitað mikilvægt að sem víðtæk samstaða náist þannig að ekki sé verið að breyta stjórnarskrá í hvert skipti sem nýr meiri hluti tekur völdin á þingi eða ný ríkisstjórn tekur við eða eftir því hvernig vindar blása. Þá þarf að meta hvað á heima í stjórnarskrá og hvað ekki og hvernig það er best sett fram með skýrum hætti. Síðan er auðvitað lykilatriði að stjórnarskrá sé breytt með þeim hætti sem stjórnskipunin sjálf gerir ráð fyrir. En það er ekki vanþörf á að minna á að það er lykilatriði í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum.