151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stöðu stjórnarskrármála, verklag og vinnuna fram undan frekar en efnislegt innihald tillagna sem væntanlegar eru til Alþingis. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég álít það verklag sem unnið hefur verið eftir á þessu kjörtímabili skynsamlegt þar sem endurskoðun á stjórnarskrá er áfangaskipt og tilteknir kaflar eða ákvæði tekin fyrir í samvinnu og samtali formanna stjórnmálaflokkanna. Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samstaða í þeim hópi er samtalið afskaplega mikilvægt að mínu áliti og líklegt til að skila meiri sátt en t.d. þegar unnið hefur verið að þessu máli af aðilum tengdum stjórnmálaflokkunum en ekki endilega beintengdum þingflokkunum. Svo má velta fyrir sér hvort við ljúkum einhvern tímann breytingum á stjórnarskrá í eitt skipti fyrir öll. Jafnvel þótt æskilegt sé að líta þannig á málin að hverri breytingu sé ætlað að standa til langs tíma hlýtur að vera mikilvægt að þjóð ræði stjórnarskrá sína alla daga og öll ár. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur lýst þeirri skoðun opinberlega að hann telji frumvörpin eins og þau liggja fyrir til bóta og eðlilegt sé að leggja þau fyrir Alþingi til frekari umfjöllunar. Ég tek undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að fá afrakstur vinnu formanna flokkanna til Alþingis. Sú vinna mun koma til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Ég vænti mikils af þeirri umfjöllun sem þar er fram undan um einstök ákvæði.