151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan höfum við ekki tíma hér fyrir mjög djúpa, efnislega umræðu en við getum rætt ferlið. Ég vil koma því sjónarmiði til skila að ég tel ferlið sem var farið í núna hafa mistekist algjörlega. Þetta er mjög svipað ferli og var farið í á þarseinasta kjörtímabili sem mistókst líka. Ég velti fyrir mér hvenær þingheimur ætli að læra af reynslunni og horfast í augu við það, af hvaða ástæðum sem það er, að Alþingi hreinlega ræður ekki við verkefnið. Hvers vegna skyldi það vera? Ég tel að það sé vegna þess að á Alþingi starfa stjórnmálamenn og ríkisstjórnin er mynduð af meiri hluta þingsins og þessi ríkisstjórn hefur einnig pólitíska hagsmuni, t.d. þá að setja ekki mörk á það hversu lengi ráðherrar geta setið, það er áberandi vöntun á því í tillögunum sem koma fram. Og skyldi engan undra. Þetta er vandamálið við að reyna að vinna þetta verkefni með því að smala saman formönnum eða fulltrúum þingflokka inn á lokaða fundi til að reyna að finna út úr þessu máli. Aðferðin virkar ekki, virðulegi forseti. Ef lagt verður aftur í sama leiðangur á næsta kjörtímabili mun ég styðja það að fulltrúi Pírata mæti en ég geri mér engar vonir um að niðurstaðan verði eitthvað betri en núna.

Í umræðunni hér er hamrað mikið á þörfinni á sátt um breytingar á stjórnarskrá, en, virðulegi forseti, það er ekki sátt um gildandi stjórnarskrá. Það er bara frekar mikið ósætti um hana. Það er verkefnið sem við gætum alveg leyst hér, alla vega ef við hefðum rænu á því að hafa verkferli sem tæki mið af vilja þjóðarinnar og annarra fyrir utan veggi þessa húss til að taka þátt í starfinu frekar en að reyna að leysa þetta sem stjórnmálamenn, til að setja umgjörð um þá sömu stjórnmálamenn. Við verðum að bera virðingu fyrir því að stjórnarskráin er stjórnarskrá þjóðarinnar, ekki stjórnarskrá Alþingis og ekki stjórnarskrá ríkisstjórnarinnar.