151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við getum rifist endalaust um stjórnarskrána og munum sennilega gera það. Við erum með bútasaumaða stjórnarskrá og því miður erum við með stjórnarskrá sem virkar ekki fyrir alla. Ef hún virkaði fyrir alla værum við ekki í þeirri stöðu sem þjóðfélagið er í í dag. Við værum ekki með fólk sem sveltur, við værum ekki með börn sem fá ekki þá þjónustu sem þau eiga að fá. Við værum ekki heldur með kosningar þannig að eitt atkvæði á einum stað gildi sem tvö atkvæði annars staðar. Við erum með óréttláta stjórnarskrá sem verið hefur bútasaumuð þannig að hún er eilífðardeilumál. Við getum ekki einu sinni sett það inn í stjórnarskrána að fullt gjald komi fyrir auðlindir þjóðarinnar. Við setjum það inn þannig að sennilega er stjórnarskráin að vernda þá sem hafa aðgang að auðlindum eins og t.d. fiskimiðunum, þeir græða. Á sama tíma erum við með fólk sem bíður í röð eftir mat. Þetta segir okkur að við erum með stórgallaða stjórnarskrá. En pólitíkusar, þingflokkar, koma sér ekki saman um þetta. Hver er þá lausnin? Við verðum að finna einhverja lausn á málinu. Ef við ætlum að kalla okkur lýðræðisríki hljótum við a.m.k. að hafa þann metnað að við séum með stjórnarskrá sem verndar fólk, sem sér til þess að enginn þurfi að svelta, að enginn sé í biðröð eftir mat, að börn þurfi ekki að vera á biðlista eftir biðlista til að komast í þjónustu. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa. Ef við getum ekki gert þetta, hvernig í ósköpunum ætlum við þá að taka á öllu hinu sem varðar stjórnarskrána?