151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Það mætti segja að komin væri upp pattstaða í stjórnarskrármálinu, en þá værum við kannski að draga fjöður yfir það að sú pattstaða hefur verið til staðar í áratug. Ekki hefur náðst að leiða breytingar á stjórnarskrá til lykta í þessum sal frá því að ferli stjórnlagaráðs var sett af stað og það er verulega miður. Hér er kallað eftir því að ákveðin ákvæði, sem taka átti fyrir á tímabilinu 2018–2021, þurfi frekari umræðu. Þar endurspeglast sennilega kjarninn í vandanum, kjarninn í ástæðunni fyrir því af hverju við lendum alltaf í þessari pattstöðu. Hér erum við, hálfu ári fyrir þinglok, að fá í hendurnar einhverja samsuðu úr fundum formanna stjórnmálaflokkanna og það á að vera grundvöllur umræðunnar. Þessi salur er vettvangur þeirrar umræðu sem á að eiga sér stað um stjórnarskrárbreytingar, en vegna þess hvernig stjórnarskrá er breytt er það alltaf gert þegar þingheimur er kominn með hugann annað, þegar mál hrannast upp í lok kjörtímabils og engar breytingar geta átt sér stað.

Þess vegna þykir mér verulega miður að af þeim viðfangsefnum sem taka átti fyrir í þessari lotu stjórnarskrárbreytinga hafi verið ákveðið að leggja til hliðar breytingu á ákvæði um hvernig stjórnarskránni er breytt. Ekki bara vegna þess að það upplegg sem lagt var af stað með í tillögum stjórnlagaráðs er einfaldara og liprara og myndi bjóða upp á að við værum þess vegna einu sinni á ári að taka frekari umræðu á þessum vettvangi um þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað, af því að við þurfum ekki þingrof til að breyta, heldur líka vegna þess að það væri milljón sinnum lýðræðislegra að þjóðin kæmi að breytingum (Forseti hringir.) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefði átt að vera fyrst á lista breytinga sem kæmu til þingsins þegar ljóst var að ekki næðist samstaða í hópi formanna. (Forseti hringir.) Og það er verulega miður að sú hafi ekki verið raunin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)