151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Það er gaman að fá að taka þátt í þessari nýsköpun í þingstörfum, að halda sérstaka umræðu um efni frumvarpa rétt áður en þeim er dreift. Það er besta mál því að stjórnarskráin er stórt og mikilvægt mál. Mér finnst mjög spennandi að við séum loks að komast á þann stað að geta rætt efnislega hvaða breytingar við viljum gera á stjórnarskránni. Síðasta áratug eða svo hefur umræðan um stjórnarskrármál því miður verið allt of föst í alls kyns svikabrigslum og fólk hefur ekki komist í að ræða efnislega hvað við viljum sjá í stjórnarskrá. Þess vegna er ég mjög ánægður með það að formenn stjórnmálaflokkanna skuli hafa gefið sér tíma og farið einarðlega í þá vinnu að komast að því hvort hægt er að ná saman um breytingar á stjórnarskrá. Eftir að hafa hlustað á umræðuna hér get ég ekki séð annað en að það sé nokkuð bjart yfir því að við náum saman um eitthvað. Hér er talað um að fólki hugnist ekki að borða fílinn í einum bita. Nei, hér er einmitt verið að leggja fram einstakar breytingar á ákvæðum og hér hefur einmitt verið talað um að sátt sé um einstaka ákvæði í frumvarpi forsætisráðherra.

Ég get ekki séð annað, forseti, en að byrlega blási fyrir því, ef við raunverulega meinum að við viljum fá inn í stjórnarskrá auðlindaákvæði, umhverfisákvæði og ýmis fleiri ákvæði sem við teljum nauðsynlegt að skerpa á, að við getum farið efnislega í þá umræðu. Við getum svo haft ólíkar skoðanir á orðalagi, að það eigi að vera svona eða hinsegin, eða jafnvel náð sátt um það sem er lagt fram. En aðalatriðið er að við förum eftir því sem við segjum sjálf. Ef við meinum eitthvað með því, einhendum okkur þá í þá vinnu að taka þessar mikilvægu breytingar til efnislegrar umfjöllunar og vonandi samþykkja.