151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér hafa góðir áheyrendur hlýtt á leikþáttinn „Íhaldsöflin ræða saman um stjórnarskrána“ að frumkvæði Birgis Ármannssonar, hv. þm. Sjálfstæðisflokksins. Upphafsmaður umræðunnar hefur rifjað upp fyrri andstöðu sína við stjórnarskrárbreytingar enda hefur hann iðulega tekið þátt í þeim töfum sem orðið hafa, ýmist með þátttöku í málþófi í þingsal eða setu sinni í óteljandi stjórnarskrárnefndum sem engu hafa skilað öðru en brostnum vonum. Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir er til svara og segir að ógerlegt sé að ná fram árangri með því að fylgja í öllu því sem hver og einn telur fullkomið.

En, herra forseti, við þá vinnu sem nú er að baki hefur hæstv. forsætisráðherra einmitt gerst sekur um það. Hún hefur lagt málið þannig fyrir hóp formanna að einungis þau atriði sem hún, og hún ein, telur tæk til breytinga verði rædd. Ekki bara það heldur var einnig viðhaft sýndarsamráð eins og umsjónarmaður rökræðukönnunar, Jón Ólafsson, benti á í umsögn sinni um frumvarpið.

Mistökin, herra forseti, sem hæstv. forsætisráðherra gerir frá upphafi og í gegnum allt ferlið eru að virða með öllu að vettugi vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Vilji þjóðarinnar var skýr. Meiri hluti vildi að stuðst yrði við niðurstöðu hins lýðræðislega skipaða stjórnlagaráðs og var það gert áfram á vettvangi lýðræðis hér á Alþingi við meðferð málsins hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Herra forseti. Það ferli sem nú hefur verið stýrt af hæstv. forsætisráðherra er andvana fætt vegna virðingarleysis við lýðræðið og þjóðarvilja og er það miður.