151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mikill meiri hluti þjóðarinnar vill, eins og kosið var um það 2012, nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er það sem þjóðin vill. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vann það frumvarp og flutti á Alþingi, samþykkti afgreiðslu þess úr nefndinni til 2. umr. í þinginu og það var meirihlutaviljinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Og meiri hlutinn á Alþingi þá vildi klára það mál en minni hlutinn á Alþingi, þingmenn minni hluta kjósenda, stöðvaði málið hér á þingi. Það er ólýðræðislegt. Þjóðin segist vilja nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs, það frumvarp er lagt fram af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og breytt í þinglegri meðferð með aðkomu Feneyjanefndarinnar og margra sérfræðinga og með mörgum athugasemdum, þær breytingar eru afgreiddar út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd inn í þingsal þar sem minni hluti þingmanna, fulltrúar minni hluta kjósenda, tekur málið í gíslingu. Það er ólýðræðislegt. Það er það eina ólýðræðislega í þessu ferli frá því að það var sett af stað með þjóðfundinum 2010, þegar hátt í þúsund manns, valdir af handahófi og af hinum og þessum hagsmunaaðilum í samfélaginu, komu sér saman um alls konar breytingar sem rötuðu vel inn í frumvarp stjórnlagaráðs. Síðan var stjórnlaganefnd skipuð og þetta tekið saman, til varð stjórnlagaráð sem bjó til frumvarp sem var komið alla þessa leið.

Lausnin er að við höldum áfram með það ferli því að frumvarpið er núna til, eins og það var eftir breytingar frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eins og það var komið hingað áður en það var stöðvað af minni hluta þingmanna, fulltrúum minni hluta kjósenda. Það frumvarp getum við haldið áfram með. Það er tilbúið og þetta hefur verið tekið saman í eitt frumvarp sem hægt er að leggja fram. Píratar og Samfylkingin hafa lagt það fram saman (Forseti hringir.) ítrekað á þessu þingi. Ef landsmenn vilja halda áfram á þeim grunni með ferlið, lýðræðislega, þarf að kjósa flokka sem ætla að gera það og strax eftir næstu kosningar verður það fyrsta mál, ef Píratar komast í ríkisstjórn, (Forseti hringir.) sem verður lagt fram og unnið áfram eftir vilja þjóðarinnar.