151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:48]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við höfum verið einlæg í þessu verklagi, við höfum verið opinská í nálgun og við höfum reynt að mjaka skynsömum og mikilvægum breytingum áfram í stjórnarskrármálinu. Forsetakafli, umhverfisákvæði og íslenskan í stjórnarskrá eru allt mál sem hægt er að styðja. Þau eru ekki fullkomin en það ógnar hvorki auðlindum né hagsmunum þjóðarinnar hvort forseti verði kosinn á fjögurra ára eða sex ára fresti. Það gerir hins vegar tillaga sem forsætisráðherra ætlar sér að kynna undir heitinu auðlindaákvæði. Það er algjört lykilatriði að tímabinda samninga um auðlindanýtingu svo að réttindi þjóðarinnar séu ótvíræð. En það má ekki. Eða breyta öðrum lögum. Öllum tillögum okkar hefur verið hafnað. Nei, þetta er tillaga um óbreytt ástand, virðulegi forseti. Þetta er óskatillaga Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknar og VG dansar með. Það undirstrikar svo rækilega af hverju þessi ríkisstjórn var stofnuð, til hvers refarnir voru skornir. Á lokametrum þessarar ríkisstjórnar verður púslið um sérhagsmuni fullkomnað. Það verður örugglega lagt af stað með alls konar málalengingar um að þetta sé nú í lagi, þetta sé nú betra en ekkert, fyrsta auðlindaákvæðið. En það er ekki þannig. Það er skömm að þessu. Þetta er skólabókardæmi um þegar almannahagsmunum er fórnað fyrir hagsmuni stjórnmálaflokka og bakhjarla þeirra. Ríkisstjórnarflokkarnir auk Miðflokksins veita þjóðinni falska öryggistilfinningu. Forsætisráðherra ætlar að selja þjóðinni að setja upp reykskynjara um allt hús en lætur rafhlöðurnar ekki fylgja með. Hún sleppir batteríunum og það af ásettu ráði. Fölsk öryggiskennd. Þetta er ekki bara óendanlega dapurt heldur stórhættulegt út frá hagsmunum þjóðarinnar og út frá hagsmunum heildarinnar. Það er því ljóst um hvað næstu kosningar munu snúast. Þá verður síðasta tækifæri þjóðarinnar til að tryggja virka þjóðareign eða festa í sessi óbreytt ástand.