151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég ætla að leyfa mér að taka upphrópanir, eins og pólitísk hrossakaup, sýndarsamráð, leikþátt og aðrar upphrópanir af þeim toga, og láta þær liggja. Ég ætla bara að leyfa þessu að liggja því að mér finnst þetta mál ekki eiga skilið svona umræðu. Þetta mál er svo miklu stærra en hefðbundin dægurpólitík, miklu stærra en sú sem hér stendur og miklu stærra en við öll og það er löngu kominn tími til að við leyfum okkur að taka efnislega afstöðu.

Viljum við að almannaréttur sem hefur verið í íslenskum rétti frá Grágás og Jónsbók njóti stjórnskipulegrar verndar? Ég segi já við því. Ég vil að íslensk tunga og íslenskt táknmál njóti stjórnskipulegrar verndar og stöðu. Viljum við það? Getum við tekist á um það og svarað þeirri spurningu? Getum við rætt um það hvort grundvallarreglur umhverfisréttar eigi heima í stjórnarskrá? Ég segi já við því. Ég segi já við því að þar verði fjallað um sjálfbæra þróun og önnur þau málefni umhverfisréttarins sem gildandi stjórnarskrá hefur verið þögul um allt of lengi. Viljum við ræða hvort við tökum mark á niðurstöðum almenningssamráðs, sem til að mynda vill ekki, samkvæmt niðurstöðum rökræðukönnunar, auka völd forseta? Það var þó eitt af því sem mátti lesa út úr tillögum stjórnlagaráðs, þar var lagt til að auka vald forseta, m.a. í tengslum við skipan embættismanna. Ræðum það efnislega, það er áhugavert að vita hver afstaða þingmanna er í því. Viljum við ræða það og taka afstöðu til þess hvort auðlindir í náttúru Íslands eigi að tilheyra íslensku þjóðinni og þær verði ekki afhentar varanlega? Teljum við það skipta máli að það standi í stjórnarskrá eða ætlum við að breyta þessari umræðu í pólitískar upphrópanir?

Það er algerlega okkar ákvörðun, okkar val. Ég ætla ekki að fara þangað, ég ætla bara að leyfa mér að fá að ræða þessi mál efnislega. Ég tel að Alþingi skuldi þjóðinni það, hver sem niðurstaða okkar verður, hvaða afstöðu sem einstakir þingmenn taka til þessara efnislegu atriða, að hana verðum við að virða. (Forseti hringir.) Ég legg hins vegar áherslu á að við ræðum málin efnislega, ekki eingöngu um málsmeðferðina eins og hefur verið gert allt of lengi, það skuldum við þjóðinni.