151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka .

364. mál
[11:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilgangur frumvarpsins er að fella rekstraraðila sérhæfðra sjóða undir gildissvið laganna, en með lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, sem tóku gildi 4. júní síðastliðinn, var komið á samræmdu regluverki vegna rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem eru allir aðrir sjóðir á fjármálamarkaði en verðbréfasjóðir. Með þeim lögum voru rekstraraðilar sérhæfðra sjóða felldir undir gildissvið peningaþvættislaganna. Á sama tíma og lögin um rekstraraðila sérhæfðra sjóða tóku gildi var til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis frumvarp til laga um breytingu á peningaþvættislögunum þar sem m.a. var samþykkt að lánveitendur og lánamiðlarar, samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda, yrðu einnig felldir undir gildissvið peningaþvættislaga. Breytingin sem var samþykkt varðaði sama ákvæðið og hafði verið breytt með lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða rúmum mánuði áður. Í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis láðist hins vegar að taka mið af framangreindri breytingu á gildissviði peningaþvættislaganna vegna rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Það hafði þær afleiðingar að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða falla sem stendur ekki undir peningaþvættislögin. Vegna umsvifa rekstraraðila sérhæfðra sjóða á fjármálamarkaði er brýnt að þessi staða verði leiðrétt eins fljótt og unnt er.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Með þessu frumvarpi eru rekstraraðilar sérhæfðra sjóða felldir á ný undir gildissvið laganna, eins og ætlunin var með lögunum. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.