151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:00]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég óska þess að þeirra upplýsinga verði aflað sem vantar og þær komi jafnframt fram þegar frumvarpið verður kynnt fyrir nefndinni. Mig langaði að spyrja út í eggjatökuheimildir, hvort þær breytist eitthvað frá því sem nú er, verði þetta frumvarp að lögum. Það er skýrt, finnst mér, með heimildir til eggjatöku á eignarlöndum, en hvað með almenninga, afréttir? Er heimilt t.d. að tína heiðagæsaregg á heiðum?

Síðan langaði mig að spyrja aðeins út í samspil vopnalaga og laga um veiðar á villtum dýrum. Hæstv. ráðherra kom í framsögu sinni inn á bann við notkun á dýrabogum og bareflum sem hafa verið notuð í ákveðnum veiðum sem hefð er fyrir, en þá þekki ég líka til þess að ákveðnir aðilar, Bogveiðifélag Íslands, hafa óskað eftir heimildum til að veiða með boga hér á landi. Var það kannað? Hindrar samspil við vopnalög eða einhverjar aðrar ástæður eins og velferð dýra slíkar heimildir? Þá vil ég spyrja hvort það sé einhver breyting á vinnslu grenja, sem sagt á því sem hefur verið kallað grenjatími.