151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:03]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hér á frumvarpi til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ég ætla að reyna að nýta tímann nokkuð hratt og vel. Í 42. gr. er fjallað um veiðar til varnar tjóni af völdum villtra fugla og villtra spendýra. Þar er komið inn á ýmsar leiðbeiningar þess efnis og hvernig menn eiga að verjast tjóni og þess háttar. Því langar mig að spyrja varðandi ágang t.d. álfta og gæsa. Ég tek nefnilega eftir því í 29. gr., um nytjaveiðar á fuglum, þar sem ráðherra er heimilt með reglugerð, samanber 54. gr., að aflétta friðun eftirtalinna fuglategunda, samanber 17. gr., innan ákveðinna tímamarka, en þá verður það tekið yfir, eins og varðandi grágæs og heiðagæs og fleiri fugla. Álftir hafa verið friðaðar og vissulega er það vandmeðfarið mál, þetta er virkilega tignarlegur og fallegur fugl. En í ljósi þessa langar mig að spyrja ráðherra hvort ekki hafi komið til tals að hafa álftina inni í þessum flokki, því að hún fellur vissulega undir þann flokk, undir veiðar til varnar tjóni.