151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:16]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að leggja fram þetta viðamikla frumvarp sem nefnist frumvarp til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem leysir af hólmi, ef áform ganga eftir, aldarfjórðungsgömul lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum frá árinu 1994. Það verður sem sagt breyting á heitinu, „friðun“ víkur fyrir hugtakinu „velferð“. Margt gerist á langri leið, bæði í náttúrunni og umhverfi okkar öllu, og þessu sambýli mannsins í þessu samhengi. Viðhorf breytast og áherslur breytast og gildismat okkar varðandi ýmsa þætti í þessu nábýli. Umhverfi þessara mála hefur allt breyst og eflaust má rekja ýmislegt í frumvarpinu, sem nú er hér til 1. umr., til þess.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar frá því síðla árs 2017 er endurskoðunar eða uppfærslu þessara laga getið og það tilgreint að dýralíf á Íslandi sé vissulega hluti af íslenskri náttúru sem okkur beri að vernda. Auk þess er þess getið og á það lögð áhersla að náttúran sé það atriði sem dregur hingað til lands langstærstan hluta af ferðamönnum.

Þetta lagafrumvarp er allviðamikið að vöxtum og í 1. gr. kemur fram markmið laganna og um það er getið í sjö liðum. Ég held að það sé nú almælt að lögin frá 1994 hafi í raun staðist vel tímana og þær þjóðlífsbreytingar sem orðið hafa á 25 árum, og þær eru ekki litlar. Í frumvarpinu er þó lögð miklu meiri áhersla á ýmis atriði sem okkur eru töm á tungu í nútímanum og verða áhersluatriði í nánustu framtíð, þ.e. umhverfis- og loftslagsmál og velferð dýra og dýravernd. Við erum farin að horfa öðrum augum á líf þessara dýra sem mörg hver eru orðin besti vinur mannsins og áhugamál fjölda fólks, viðfangsefni í frístundum og markmið fjölda fólks er að standa vörð um dýr. Í þessu sambandi má líka nefna ýmsar skuldbindingar sem við höfum undirgengist í samskiptum við aðrar þjóðir, gert alþjóðasamninga sem eru samræmdir á þessu sviði og eins og ég nefndi áður þá er líka verið að endurskoða þessi lög með hliðsjón af þeim auknu samskiptum sem við eigum við erlent fólk sem hingað kemur og m.a., eins og komið hefur fram í umræðum og andsvörum, lýtur þetta að veiðum og stjórnun og stýringu á veiðum á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Í frumvarpinu eru lagðar til talsverðar breytingar á allri þessari umgjörð, sem varðar vernd, friðun og velferð villtra fugla og villtra spendýra, frá því sem var í gömlu lögunum. Um það er getið í frumvarpinu í mörgum liðum, ég held að það séu einir 14 liðir.

Eitt af höfuðmarkmiðum frumvarpsins er að tryggja að ekki sé gengið á líffræðilegan fjölbreytileika. Þetta eru ekki endilega óumdeild atriði. Í stjórnmálum og í stjórnun auðlinda geta þetta verið viðkvæm mál og það var komið inn á það í andsvörum áðan hvers vegna sjávarspendýr eru ekki hluti af frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Það læðist að manni sá grunur að ástæðan sé m.a. sú að þar togist á stríð en sterk hagsmunaöfl.

Það hefur oft verið sagt og því haldið á lofti að fjölskrúðugt fuglalíf sé einn besti mælikvarðinn á það hvort vistkerfi geti talist heilbrigt og það sé vísbending um umfang líffræðilegs fjölbreytileika. Ég mun kannski fyrst og fremst í þessari stuttu ræðu fjalla um fuglana. Það er nokkur upptalning á fuglum sem ráðherra er heimilt með reglugerð, sbr. 54. gr., að aflétta friðun á, sbr. 17. gr., innan ákveðinna tímamarka. Þær fuglategundir sem ráðherra er heimilt að aflétta friðun á frá 1. september til 31. mars, svo að dæmi sé tekið, eru allnokkrar. Það er dílaskarfur, toppskarfur, súla, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd og rita. Og frá 1. september til 10. maí eru það álka, langvía, stuttnefja, teista og lundi. Þetta kann að koma spánskt fyrir sjónir vegna þess að einhverjar þessara fuglategunda eru á válista og hafa verið friðaðar um árabil. Það virðist ekki vera svo að ástæða sé til að leyfa veiðar á duggönd. Bæði er vetrarstofninn lítill, örfá hundruð fugla, og svo er duggönd á válista sem tegund í hættu. Blesgæs er einnig nefnd þó að hún hafi verið friðuð um árabil og sé einnig á válista. Engin merki eru um að henni muni fjölga í bráð. Því vaknar kannski sú spurning hvers vegna hún sé nefnd á þessum lista. Álka, langvía, stuttnefja, teista og lundi eru stofnar á niðurleið og á válista, sérstaklega stendur stuttnefjan höllum fæti. Talið er að gróðurhúsaáhrifin hafi einna mest áhrif á fækkun þessara fugla en ekki verður séð að þau muni dvína í bráð.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort ekki þurfi að rýna þetta örlítið betur en ég geri ráð fyrir að þessu frumvarpi, sem er drjúgt að umfangi, verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og þar gefist tækifæri til að fjalla nánar um ýmsa þætti þess og fræðast, í samtölum og í heimsóknum fræðafólks, nánar um fjölmarga þætti þess.