151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa umræðu. Mér er mjög ljúft að koma hér upp og ræða svolítið um þessi mál við þingmanninn. Það vakti athygli mína að hann nefndi að hann vildi víðtækari og breiðari umræðu um umhverfismál en ekki bara um grjót og urð. Ég held reyndar að við höfum alltaf færst lengra og lengra í umhverfisumræðunni og hún nær nú sem betur fer yfir miklu víðara svið en það, sem er samt líka mikilvægt svið. Ég hvet þingmanninn til að styðja við frumvarpið, það er til framfara. Eitt af því sem þingmaðurinn nefndi voru þessir válistar. Ég horfði líka á þessar lagagreinar og sá að þarna eru listaðar upp tegundir sem eru á válistum þó svo að þær séu jafnframt í frumvarpinu, eins og í 29. gr. sem ég veit að þingmaðurinn er að vísa til, en ekki má gleyma því að það þarf að aflétta friðuninni til að 29. gr. gildi. Það sem við erum að gera með frumvarpinu er akkúrat að færa kerfið í átt að því að geta tekist á við og tekið til greina að dýrin fari yfir á válista vegna þess að í stjórnunar- og verndaráætlun, sem á að vinna og er vísindalegur grunnur fyrir ákvörðunum stjórnvalda, ber að taka tillit til og skoða einmitt válistana. Válistar eru ekki í lögum í dag. Það er ekki kveðið á um að það eigi að gera þá í dag. Þess vegna er þetta mikil réttarbót fyrir dýr, að sérstaklega skuli vera kveðið á um válistana í þessu og að taka eigi tillit til þeirra. Ég mun koma inn á fleiri atriði í síðara andsvari hér á eftir.