151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Óttalega var þetta eitthvað kerfiskarlalegt svar. Hver er afstaða ráðherrans til veiða á langreyðum? Styður hann þær eða styður hann þær ekki? Hvað með selaveiðar? Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara kategórískt yfir þetta í seinna andsvari. Ætlar hann að stoppa veiðar á fuglategundum sem eru nú þegar á válista? Hann hefur það vald. Byrjum á fuglunum. Hæstv. ráðherra, gefðu þingheimi og þjóðinni endilega skýr svör. Hvað á að gera í sambandi við selaveiðar? Er búið að heimila þær? Hver er afstaða ráðherra til þeirra? Hvað með langreyðarnar? Verða þær veiddar næsta sumar? Styður ráðherra það eða ætlar hann að beita sér til að koma í veg fyrir það? Hann minntist sjálfur á válistana, þessar 15 fuglategundir sem ég gat um eru nú þegar á válista. Af hverju eru stjórnvöld, umhverfisráðherra, að heimila veiðar á þeim? Ég er með tölur, þær eru frá hæstv. umhverfisráðherra sjálfum, um hve margir fuglar eru veiddir af fuglategundum sem eru á válista. Er hæstv. ráðherra ekki til í að segja: Hingað og ekki lengra, það verða engar veiðar á fuglum á válista? Eða hvað? Válistinn liggur fyrir. Og hver er afstaðan til blóðmerahalds og minkanna? Ég veit að hæstv. ráðherra á ekki margar mínútur eftir, en ég hvet hann til að gefa þingheimi og þjóðinni skýr svör. Hann hlýtur að hafa pólitískar skoðanir á þessu. Það er það sem ég er að kalla eftir. Svo gæti hann nefnt í lokin afstöðu sína til refaveiða. Selir, hvalir, fuglar, blóðmerahald og minkar.