151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo að þegar þingmenn spyrja margra spurninga þá kemst maður ekki yfir þær allar. Ég vildi byrja á því að ræða þetta kerfislega vegna þess að við erum að gera kerfisbreytingu, og hún mun skipta máli eins og ég kom inn á. En ég lofaði jafnframt þingmanninum áðan að ég myndi reifa skoðanir mínar hér. Ef ég byrja bara á því sem snýr að stórhvelum er alveg ljóst hver mín afstaða er þar. Ég er ekki fylgjandi slíkum veiðum. Ég hef látið það koma skýrt fram allt kjörtímabilið. En hv. þingmaður veit jafn vel og ég að það er ekki á mínu valdsviði að ákveða hvort slíkar veiðar fari fram eða ekki. Þannig er stjórnskipanin ekki í landinu.

Mig langar að koma aðeins inn á selina af því að ég er ekki alveg inni í því sem þingmaðurinn spyr um, hver staðan er á því akkúrat núna. En hér var samþykkt frumvarp frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sennilega í fyrra, um breytingar á lögum um lax- og silungsveiðar sem kveða á um takmarkanir á selaveiðum. Ég er ekki alveg klár á því hvernig framkvæmdin á því stendur, því miður, ég get ekki upplýst hv. þingmann um það.

Mig langar líka að koma inn á refina af því að mér finnst það mjög mikilvægt mál. Mér finnst stundum hafa borið á því í umræðunni á Íslandi, og kannski í afstöðu fólks til refsins, að hann sé eitt versta skaðræði sem til er. Ég er nú ekki sammála því. Refurinn á sér ákveðinn tilverurétt sem er kannski sterkari en annarra dýra sem hér eru, bæði húsdýra og annarra villtra dýra sem hafa verið flutt til landsins, einfaldlega vegna þess að hann er landnámsskepna. Ég held að það kerfi sem við erum að setja upp núna í þessari löggjöf komi til með að styrkja vernd á refum, einfaldlega vegna þess að sýna þarf fram á tjón. Við erum þá að byggja allar þessar ákvarðanir á vísindalegum grunni.