151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[14:47]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra getur ekki svarað mér aftur, en hann getur hins vegar haldið aðra ræðu. Hann nefndi ekki fuglana sem þó heyra undir hann, veiðar á fuglum á válista. Ég hvet hann til að koma í aðra ræðu og útskýra af hverju hann stendur fyrir slíku. Hann nefndi selina, hvalina og refinn, en fuglarnir eru stórmál. Hann nefndi ekkert með blóðmerahaldið og ekkert með minkana. Ég vil líka hvetja hann til að lýsa sinni skoðun hvað það varðar. Ég veit að hann getur ekki gert það í andsvari en hann getur gert það í annarri ræðu eða við önnur tækifæri, kannski búinn að undirbúa sig eins og allir þurfa að gera. Ég hvet hann til að koma af meiri krafti inn í þessa umræðu sem lýtur að dýrum og dýravernd.

Dýralíf á Íslandi er ekki mjög fjölbreytilegt og við eigum að standa vörð um það og við eigum líka að vera framarlega þegar kemur að dýravernd á heimsvísu. Það eru fjölmargar dýrategunda í hættu. Það er þrengt að skilyrðum og búsetu margra dýrategunda og við eigum að vera í fararbroddi hvað það varðar. Við höfum talað mjög skýrt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana fyrir sjálfbærni fiskveiða, enda ríkt hagsmunamál Íslendinga. En tökum af skarið þegar kemur að heimskautarefnum, loðdýrarækt, fuglum o.s.frv. Þar getum við látið í okkur heyra og aftur vil ég hvetja allan þingheim og þjóðina til að útvíkka þessa umræðu um umhverfismál, láta þetta ekki bara snúast um grjót og fossa, það skiptir líka máli.

Ég held að eftir nokkur ár, fimm til sex ár, tíu ár, verði umræðan um dýravernd, skilyrði dýra og aðbúnaði þeirra, ekki síst þeirra dýra sem við erum að framleiða, ef svo má segja, miklu meira í forgrunni. Þetta skiptir máli. Þetta er mál framtíðarinnar og dýravernd snertir hag mannskepnunnar. Það sjáum við ekki síst í kórónuveirufaraldrinum sem við nú glímum við. Veiran barst úr dýri í mann vegna slæms aðbúnaðar og mikils samneytis manna og dýra við hörmulegar aðstæður úti í heimi.