151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[14:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, eða rammaáætlun eins og hún er nefnd í daglegu tali, skal leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í áætluninni skal, í samræmi við markmið fyrrnefndra laga, lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða, og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.

Tillagan sem ég mæli fyrir hér er lokapunkturinn á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar, sem hófst árið 2013 og var skilað til þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2016. Það er mikilvægt að minna á að þetta er í fyrsta skipti sem vinnan við rammaáætlun er unnin í samræmi við núgildandi lög um vernd og orkunýtingu landsvæða, en þau tóku ekki að fullu gildi fyrr en árið 2013.

Ég hef, að höfðu samráði við ráðherra orkumála eins og lögin gera ráð fyrir, farið yfir tillögur verkefnisstjórnar og legg þær nú fram hér á Alþingi. Þetta er í þriðja sinn sem þessi sama tillaga er lögð fram á Alþingi en í henni er gerð tillaga um flokkun 82 virkjunarkosta í verndarflokk, nýtingarflokk eða biðflokk.

Rammaáætlun er afar mikilvægt stjórntæki til að finna málamiðlanir í stórum og oft erfiðum málum sem hafa valdið miklum deilum í samfélagi okkar. Án hennar væri ekki unnið neitt heildstætt mat á fram komnum virkjunarkostum í samhengi landsins alls. Ég tel að verkfærið rammaáætlun sé mikilvægt til þess að undirbúa ákvarðanatöku sem byggir á faglegri vinnu og forsendum.

Rammaáætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn áætlunarinnar hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Fjallar áætlunin um orkukosti sem orkufyrirtæki hafa óskað eftir að láta meta og einnig kosti sem Orkustofnun hefur óskað eftir að séu metnir.

Virðulegi forseti. Eins og kveðið er á um í lögum nr. 48/2011 kynnti verkefnisstjórn drög að tillögum sínum og gaf stofnunum, almenningi og hagsmunaaðilum færi á að veita umsagnir um fram komin drög. Í kjölfarið á umsagnarferlinu vann verkefnisstjórn að tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta sem fóru í lögbundið tólf vikna samráðsferli. Í síðara samráðsferlinu bárust verkefnisstjórn 69 umsagnir frá alls 44 aðilum.

Mér finnst mikilvægt að benda á að þær umsagnir sem bárust eru alls ekki á einn veg heldur eru þar einmitt reifaðar margar og ólíkar skoðanir, með vernd og með orkunýtingu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga við afgreiðslu málsins.

Lokatillögur verkefnisstjórnar til ráðherra voru einróma ef frá er talinn virkjunarkosturinn Hólmsárvirkjun við Atley þar sem tveir fulltrúar í verkefnisstjórn skiluðu séráliti. Mæli ég fyrir tillögunum óbreyttum eins og þær voru settar fram af verkefnisstjórn, til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar fór umhverfismat áætlunarinnar fram samhliða gerð áætlunarinnar. Ég ætla ekki að fara yfir rökstuðning fyrir flokkun hvers virkjunarkosts fyrir sig heldur vísa þar til skýrslu verkefnisstjórnar og þá sérstaklega kafla 9.3 á bls. 165.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda um mikla hagsmuni og málefni sem hafa valdið miklum átökum í okkar samfélagi. Það er brýnt að missa ekki sjónar á því að rammaáætlun er ætlað að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og orkunýtingu orkukosta. Hún á þannig að gefa ákveðna heildarmynd en á ekki fara niður á það stig að fara í of ítarlegar greiningar á smærri atriðum.

Ég vil nefna að tillagan sem ég mæli hér fyrir er í senn orkunýtingaráætlun, á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun. Hún er jafnframt varfærin og leggur ekki til flokkun margra nýrra orkukosta, til viðbótar því sem lá fyrir í öðrum áfanga. Þannig vegur hún saman efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif.

Fyrirliggjandi tillaga felur í sér möguleika til rúmlega 1.400 MW orkuöflunar ef ráðist yrði í alla kosti í orkunýtingarflokki. Til samanburðar vil ég benda á að uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi er um 2.500 MW. Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd. Að auki er í tillögunni stór biðflokkur þar sem er að finna virkjunarkosti sem lagt er til að skoðaðir séu betur í framtíðinni.

Að lokum vil ég fjalla aðeins um tengsl rammaáætlunar og frumvarps til laga um hálendisþjóðgarð sem ég hef áður mælt fyrir. Í því frumvarpi er lagt til að skilgreind verði svokölluð jaðarsvæði hálendisþjóðgarðs vegna orkunýtingar innan þess svæðis sem þjóðgarðurinn tekur til. Þessi svæði teljast ekki hluti hins friðlýsta svæðis. Þeir virkjunarkostir sem skilgreindir eru í biðflokki í þeirri tillögu sem ég mæli fyrir núna og er að finna innan fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs munu fara í áframhaldandi umfjöllun hjá verkefnisstjórn, sem mun leggja fram tillögur um hvort þeir falli í verndarflokk eða nýtingarflokk. Falli þeir á endanum í nýtingarflokk mun það landsvæði skilgreinast sem jaðarsvæði þjóðgarðsins. Með stofnsetningu hálendisþjóðgarðs verður því ekki komið í veg fyrir að þeir virkjunarkostir í biðflokki í 3. áfanga rammaáætlunar, sem falla innan þeirra marka sem þjóðgarðurinn mun ná til, fái endanlega umfjöllun verkefnisstjórnar og síðar Alþingis. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að komið geti til frekari nýrra virkjunarhugmynda innan hálendisþjóðgarðs auk þess sem settar eru strangari skorður, í umfjöllun verkefnisstjórnarinnar, t.d. að beina mögulegum nýjum orkukostum inn á svæði sem þegar eru röskuð.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið meginefni þessarar þingsályktunartillögu og legg til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.