151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég stefni að því að koma með frumvarp um breytingar á lögunum um rammaáætlun nú á vorþingi sem fjalla sérstaklega um vindorkuna. Vindorkan er um margt sérstök vegna þess að alla vega hér á Íslandi má segja að hún sé ekki staðbundin, hún er alls staðar. Það gerir hana öðruvísi en jarðvarmann og vatnsaflið sem er staðbundið. Ég tel að við eigum að geta nálgast málsmeðferðina með einfaldari hætti fyrir vindorkuna á sama tíma og við búum til skýrar leikreglur um það inn á hvers konar svæði við ætlum ekki að fara með vindorkuna. Við getum nefnt sem dæmi friðlýst svæði eða eitthvað slíkt. Á öðrum svæðum metum við í hvaða tilfellum væri æskilegt, eða réttlætanlegt ef við getum orðað það þannig, út frá verndarsjónarmiðum að ráðast í vindorku. Það yrði þá hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar að meta slík svæði, hvert fyrir sig, þannig að við séum búin að forflokka landið hvað varðar vindorku. Síðan væru þá einhver svæði sem væru hvorki á bannsvæðum, ef við getum kallað þau svo, eða svæðum sem þarf að skoða og myndu þá bara falla undir það regluverk sem heyrir undir leyfisveitingar og annað slíkt.

Ég vonast til að frumvarp þessa efnis fari í samráðsgátt, vonandi í byrjun næstu viku. Ég vil síðan bara segja að ég held að við verðum að horfa til vindorkunnar sem hluta af því sem við erum að gera varðandi orkunýtingu og sérstaklega ef hún getur orðið til þess að létta á öðrum viðkvæmum svæðum. Við gætum líka horft til þess að í framtíðinni værum við jafnvel að horfa (Forseti hringir.) til vindorkunýtingar úti á hafi eins og er orðið algengara erlendis.