151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að vindorka sé klárlega orkuöflunarkostur sem okkur ber að líta til eins og verið er að gera, bæði með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu og líka breytingum á lagaverki sem ég boðaði hér áðan og hef boðað áður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum varlega í þessa orkunýtingu líkt og aðra og að við horfum til þess hvers konar umhverfisáhrif eru af henni. Þau eru kannski fyrst og fremst sjónræn, það geta líka verið alvarleg áhrif á farleiðir fugla eða ef um einhvers konar viðkvæm búsvæði er að ræða. Þetta er allt eitthvað sem ég held að sé skynsamlegt að við búum til sérstakan ramma utan um, eins og ég lýsti hér áðan. Við séum með svæði sem við förum ekkert inn á með þessa orkunýtingu, við séum svo með önnur svæði þar sem við skoðum hvort slík orkunýting komi til greina og einföldum í rauninni regluverkið í kringum það, ég held að það sé sjálfsagt mál, og í þriðja lagi séu svæði sem þarfnast ekki annarrar skoðunar en mats á umhverfisáhrifum og að fara í gegnum þau leyfisveitingaferli og skipulagsferli sem almennt lúta að verkefnum sem þessum. Ég held að vissulega séu tækifæri í vindorkunni, ég tek undir það með þingmanninum, en segi bara svona almennt að fyrir ferðamannalandið Ísland þurfum við náttúrlega að fara varlega í þetta líkt og aðra umfangsmikla nýtingu á orkuauðlindum okkar.