151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég sat á sínum tíma í hv. iðnaðarnefnd Alþingis við setningu þeirra laga sem fjalla um rammaáætlun. Ég sat þar ásamt hv. þingmönnum Kristjáni Möller, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Magnúsi Orra Schram, Þráni Bertelssyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Margréti Tryggvadóttur, Gunnari Braga Sveinssyni og Tryggva Þór Herbertssyni. Í stuttu máli þá náði þessi hópur þverpólitískt saman um lagasetningu um rammaáætlun. Það voru allir flokkar sem studdu þessi lög og töldu sig hafa náð ansi merkilegum áfanga. Þvert á pólitíkina tókumst við í hendur og þóttumst hafa skilað góðu starfi í hv. iðnaðarnefnd. Niðurstaðan varð þau lög en framkvæmdin á þeim hefur síðan verið ein hörmungarsaga, því miður.

Það á að yfirfara rammaáætlun á fjögurra ára fresti. Hún var síðast samþykkt 2013. Það eru sem sagt að verða átta ár. Þinginu hefur ekki auðnast að afgreiða rammaáætlun í heild sinni frá þeim tíma. Vissulega hefur málið verið til umfjöllunar, eytt í það mismiklum tíma í þinginu, ágreiningur verið gríðarlega mikill, sem við töldum okkur hafa verið að girða algerlega fyrir á sínum tíma og þyrfti ekki að koma upp. Svo einfalt var það nú í okkar huga.

Ég er einn af þeim sem telja að sú rammaáætlun sem nú er verið að leggja fram standist ekki þessi lög. Spurningin er þá hvort þingið ætlar að leiðrétta það eða horfa í gegnum fingur sér við þá afgreiðslu að ráðherra uppfylli ekki lögin með því að leggja málið fram með þeim hætti sem hér birtist.

Í nefndaráliti iðnaðarnefndar þess tíma sem fjallaði um þetta mál kemur fram í kaflanum um markmið laganna:

„Með frumvarpinu er stefnt að því að setja í fyrsta sinn eina, heildstæða löggjöf um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýra þá stöðu sem hún á að hafa gagnvart stjórnvöldum við gerð skipulagsáætlana og veitingu opinberra leyfa, þar með talið rannsóknar-, nýtingar- og virkjunarleyfa.“

Það er um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þá var það greinilega ekki skilningur þingsins, löggjafans, að vindorka ætti eitthvert erindi inn í þetta og um það hefur ekki verið tekin ákvörðun eða um það fjallað á vettvangi þingsins.

Á tveimur stöðum í nefndarálitinu er farið yfir það að gefnu tilefni hvað það er sem faghóparnir eiga að taka til skoðunar. Í kaflanum um orkunýtingarflokk kemur fram að hjá umsagnaraðilum hafi komið fram athugasemdir sem lúti að því þegar virkjunarkostir eru settir í orkunýtingarflokk. Þar segir:

„Nefndin vill í þessu sambandi benda á að á vettvangi fjögurra faghópa verkefnisstjórnar er gerð kostnaðar- og ábatagreining, metin samlegðaráhrif virkjunarkosta og þjóðfélagslegur ábati metinn að teknu tilliti til umhverfiskostnaðar, samanber verksvið faghópanna fjögurra: I. Náttúrufar og menningarminjar, II. Útivist, ferðaþjónusta og hlunnindi, III. Efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana, IV. Virkjunarkostir og hagkvæmni þeirra. Horft er til allra þessara þátta við ákvörðunartöku.“

Nákvæmlega þessi upptalning er síðan endurtekin í kafla nefndarálitsins þar sem fjallað er um verkefnisstjórn og vinnu faghópanna. Þessi vinna hefur ekki farið fram. Það er of langt mál að rekja það, virðulegur forseti, af hverju það er, en það er staðreynd. Þannig að ég held að það sé algerlega óumdeilt að við höfum ekki þau gögn í höndunum sem löggjafinn gerði ráð fyrir þegar lögin voru sett til að vinna þetta mál af einhverri skynsemi.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi það áðan að margt hefði breyst síðan lögin voru sett og það er alveg rétt. Það hefur margt breyst í okkar samfélagi en lögin hafa ekki breyst. Það hafa ekki verið lagðar fram breytingartillögur við þessi lög þó að ég hafi oft kallað eftir því og talið að sú vinna þyrfti að fara fram. Það er auðvitað gagnrýnisvert að hæstv. ráðherra skuli koma hér og leggja fram tillögur sem voru tilbúnar fyrir nokkrum árum, vanunnar, og þær koma fram óbreyttar.

Það er mjög tímabært að gera breytingar á lögum um rammaáætlun. Til að mynda er eitt atriði sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga við umfjöllun um þessi mál í nútímanum og í framtíðinni en það er þjóðaröryggi. Afhendingaröryggi raforku er eitthvað sem skorar hvað hæst í öryggismálum allra þjóða. Ef farið er í gegnum lagasetninguna á sínum tíma má segja að við höfum alveg horft fram hjá þessum þætti. Síðan þá höfum við til dæmis fengið jarðhræringar í Vatnajökli, eldgos þeim tilheyrandi og þær sviðsmyndir sem hafa verið teiknaðar upp eftir þá gríðarlegu atburði og þeir möguleikar sem við okkur blasa í þeim efnum segja okkur að það er mjög hættulegt og verður að koma til skoðunar hvað orkuöflun þjóðarinnar er á takmörkuðu svæði á landinu. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða. Þetta er eitthvað sem þarf að taka tillit til við mat á virkjunarkostum.

Þegar síðan er horft á þá flokka sem eru í þessari þingsályktunartillögu, virðulegur forseti, þá erum við við sama heygarðshornið. Í nýtingarflokknum eru allir alvöruvirkjunarkostir á Reykjanesskaga og í Þjórsá tengdir því, þ.e. vatnsaflskostir og háhitasvæði. Það er varla hægt að segja að það komi nokkuð annars staðar á landinu. Hvalárvirkjun var nefnd hér áðan sem er áfram í nýtingarflokki í þessum tillögum. Það var mjög bent á hana á sínum tíma þegar hæstv. umhverfisráðherra þáverandi, Svandís Svavarsdóttir, lagði til að Hvalárvirkjun færi í nýtingarflokk, einn vatnsaflsvirkjunarkosta á þeim tíma. Því var haldið mjög til haga við okkur sem vildum fá fleiri kosti að við hefðum einn vatnsaflskost til að vinna úr. Við skyldum klára það áður en við færum að biðja um fleiri vatnsaflskosti. Hann var auðvitað bara settur þarna í pólitískum tilgangi, einfaldlega til þess að geta bent á hann. Það grunaði engan þá að það kæmu einhverjir sem vildu virkja þann kost. Hvalárvirkjun er þriðji óhagkvæmasti virkjunarkostur okkar í vatnsafli af öllum þeim virkjunarkostum sem hafa verið skoðaðir. Það eru margir aðrir kostir sem ég tel að eigi miklu frekar að horfa til heldur en Hvalárvirkjun.

Virðulegur forseti. Tækifærin liggja hjá okkur í orkunni. Við þurfum núna að stokka upp íslenskt samfélag, verðmætasköpun og atvinnulíf. Við þurfum að gera það á forsendum umhverfismála, á forsendum sem tengjast loftslagsmálum og orkan getur spilað þarna mjög stórt hlutverk — matvælaframleiðsla, gagnaveraiðnaður, vetnisframleiðsla, alvöruorkuframleiðendur til útflutnings eins og Danir ætla sér að vera, ætla að tvöfalda raforkuframleiðslu sína á næstu 30 árum. Tækifærin liggja þarna. Ég er ekki viss um að við viljum að ferðaþjónustan verði mikið stærri en hún var áður en Covid-faraldurinn gekk yfir, þó að vissulega vilji maður sjá hana braggast og að hún spili stóra rullu í okkar samfélagi. Það er mikilvægt og reynsla undanfarins árs hefur kennt okkur það að við þurfum að fjölga eggjunum í körfunni. Það er eitthvað sem við höfum haldbært, til að halda á, það eru virkjanirnar, það er raforkan. Við höfum tækifæri umfram aðrar þjóðir, þegar kemur að þessum þáttum, og hagsmunir þjóðarinnar og komandi kynslóða eru gríðarlega miklir. (Forseti hringir.) Við getum byggt upp velferðarsamfélag á grunni þess sem við eigum framar öðrum þjóðum.