151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í mínum huga liggur það alveg klárt fyrir að lögin hafi ekki verið uppfyllt með þeirri vinnu sem hefur verið unnin til undirbúnings þessu máli. Menn verða þá, eins og ég sagði áðan, þingið, að gera greinarmun á því hvort verið er að brjóta lögin með framlagningu þess eða hvort þingið ætlar að horfa í gegnum fingur sér og afgreiða þetta með þessum hætti. Það sama átti sér stað í ríkisstjórninni 2017. Það sama átti sér stað hjá hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, á kjörtímabilinu 2013–2016. Þetta er bara staðan í þessu máli.

Ég hef haldið því fram allan tímann að vinnan sé ekki fullnægjandi. Það kom fram áðan hjá öðrum hv. þingmanni að mjög skammur tími hefði verið gefinn fyrir vinnuna í nefndunum. En sá hópur sem að mínu mati á að fjalla um það sem er ekki síður mikilvægt en annað í þessu var skipaður miklu seinna en hinir, þ.e. þegar kemur að hagkvæmninni og áhrifunum af því. Það liggur alveg fyrir að slík úttekt á virkjunarkostum er gríðarlega mikilvæg vegna þess að það er jú það sem ræður samkeppnishæfni landsins í uppbyggingu verðmæta og atvinnusköpunar í framtíðinni, að við séum ekki að horfa til kosta eins og Hvalárvirkjunar, sem er einn af óhagkvæmustu virkjunarkostum landsins, þ.e. hvert megavatt sem þaðan kemur verður miklu dýrara en frá fjölmörgum öðrum kostum sem hafa í senn miklu minni umhverfisáhrif en sú virkjun. Þetta verður (Forseti hringir.) líka að liggja til grundvallar ef við tökum þessar ákvarðanir. Að mínu mati hafa lögin ekki verið uppfyllt að þessu leyti.