151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, tillögur frá umhverfis- og auðlindaráðherra, og þakka ég hæstv. ráðherra framsöguna. Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að vinna að framkvæmd áætlunar um vernd og orkunýtingu tiltekinna landsvæða, eða rammaáætlunar. Verði þessi tillaga samþykkt, sem er 3. áfangi rammaáætlunar, kemur hún í stað áætlunar sem var samþykkt árið 2013 en síðan bætt við með breytingu árið 2015.

Áætluninni er ætlað að tryggja að nýting landsvæða, þar sem er að finna virkjunarkosti, byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tillit er tekið til sjónarmiða um verndargildi náttúru, verndargildi menningarsögulegra minja, tekið tillit til hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, auk þess hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, sömu kosti, allt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í áætluninni skal þannig lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar sem getur verið einn kostur við nýtingu lands. Í tillögunni sjálfri er svo lögð til skipting á 82 orkunýtingarkostum í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Innan hvers flokks eru orkukostir flokkaðir eftir því hvort þeir eru á vatnasviði, háhitasvæðum eða snúast um virkjun vindorku.

En þrátt fyrir göfug markmið, eins og ég hef lýst hér að framan, þá hefur gengið illa á liðnum árum að ná sátt um aðferðirnar sem við notum við mat orkukostanna og sáttin hefur hvorki náðst innan né utan þings. Ég vil samt fagna því að nú skulum við þrátt fyrir allt vera komin með 3. áfanga rammaáætlunar til umræðu og afgreiðslu hér á Alþingi, vissulega ekki í fyrsta skipti en það skapar okkur tækifæri til úrbóta.

Þingflokkur Framsóknarflokksins setti fram fyrirvara við afgreiðslu málsins til Alþingis og ætla ég að gera grein fyrir þeim fyrirvara hér. Hann hljóðar svo:

„Rammaáætlun er mikilvægt verkfæri við mat á virkjunarkostum. Það liggur fyrir að gagnrýni hefur verið uppi um málsmeðferð 3. áfanga rammaáætlunar um að mat faghópa 3 og 4 hafi ekki verið hluti af matsferlinu. Auk þess liggur fyrir gagnrýni um aðferðafræði afmörkunar landsvæða sem hljóta friðlýsingu fyrir orkuvinnslu í kjölfar ákvörðunar um að virkjunarkostir fari í verndarflokk. Þá er mikilvægt að skýra frekar samspil landsskipulagsstefnu, umhverfismats og rammaáætlunar við mat og val á vindorkukostum. Þingflokkur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að unnið verði með þessi atriði sérstaklega í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar með málið.

Þá setur þingflokkurinn þann fyrirvara við afgreiðslu málsins að í meðförum Alþingis verði skoðuð að fjölga kostum í biðflokki og að afgreiðsla 3. áfanga rammaáætlunar verði ekki á neinn hátt skuldbindandi fyrir afmörkun þjóðgarðs á hálendinu.“

Þá hef ég lokið því að gera grein fyrir fyrirvara þingflokks Framsóknarflokksins. Eins og ég sagði áður hefur, þrátt fyrir göfug markmið, gengið illa að ná sátt um aðferðirnar sem við notum við mat orkukosta. Því gætir tortryggni gagnvart niðurstöðunni vítt og breitt um samfélagið. Ég lít þannig á að Alþingi geti ekki horft fram hjá þessari tortryggni og eins og fyrirvari þingflokksins ber með sér þurfi samhliða umfjöllun um tillöguna sjálfa, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, að rýna ferli tillögunnar á leið hennar til Alþingis og úrvinnslu að umfjöllun lokinni, þ.e. vinnuna við verndun þeirra kosta sem fara í verndarflokk og afmörkun þeirra.

Þá hefur verið bent á að eðli virkjunar vindorku sé töluvert annað en annarra orkukosta þar sem vindurinn er jú ekki staðbundinn og þess vegna ekki heppilegt að hafa umfjöllun um vindorkukostina í nákvæmlega sama ferli og umfjöllun um virkjun vatns og háhita. Ég fagna þess vegna því sem hæstv. ráðherra boðaði hér fyrr í umræðunni að von væri á frumvarpi til að skýra þá umfjöllun.

Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd og þangað mun þetta mál koma til umfjöllunar. Ég vænti þess að nefndin muni fara af krafti í það verkefni því að ég tel mjög mikilvægt fyrir Alþingi að ná að afgreiða þessa tillögu með einhverjum hætti og stuðla samhliða að betri sátt um verkferlið til framtíðar.