151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við þessa fyrri umræðu langar mig að tala um málið svolítið á almennum nótum. Því verður væntanlega að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og mikil vinna fram undan. Umræðan hér það sem af er hefur verið mjög áhugaverð. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra framsöguna. Ræða félaga míns í umhverfis- og samgöngunefnd, Jóns Gunnarssonar, var prýðileg fyrir margra hluta sakir og andsvör félaga míns úr umhverfis- og samgöngunefnd, hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, og það samtal sem átti sér stað milli þeirra tveggja þingmanna, undirstrikar hversu flókið þetta mál getur orðið að mörgu leyti og er. Eflaust er það skýringin á því að við erum hér árið 2021 að fjalla um tillögu um rammaáætlun en núgildandi tillaga var samþykkt 14. janúar 2013. Á löngum köflum hefur það verið sorgarsaga að fylgjast með því gríðarlega tyrfna ferli sem orkuvirkjunarkostir og verkefni þeim tengd þurfa að glíma við, mér þykir rétt að orða það þannig, og þeir aðilar sem fara fyrir þeim verkefnum, hvort sem það eru opinber fyrirtæki eða einkaaðilar. Við erum búin að forma regluverkið með þeim hætti að okkur gengur mjög illa að komast áfram með þá kosti sem sátt virtist á einhverjum tíma vera um og enn verr gengur okkur með þá kosti sem eru í svokölluðum biðflokki og til frekari skoðunar.

Það er rétt að minna á í þessu samhengi hvers lags aðgerð eða slagur fór af stað þegar hillti undir virkjun Hvalár á Ströndum. Það var þó kostur sem var búinn að vera í nýtingarflokki, a.m.k. frá þeim tíma er núgildandi áætlun var samþykkt í janúar 2013. Út úr þessu formi sem rammaáætlunin er held ég að við verðum að finna einhverja skynsamlega leið.

Það var athyglivert jólaávarp orkumálastjóra sem kvaddi það starf nú um áramótin, jólaerindi hans sem birtist á vef Orkustofnunar í desember sl. Mig langar til að koma inn á eitt efnisatriði í því ávarpi, þar sem yfirskriftin er „Út fyrir rammann“. Þar fer fyrrverandi orkumálastjóri yfir ferlið og sögu þessarar nálgunar sem rammaáætlun er ætlað að ná utan um. Með leyfi forseta, segir orkumálastjóri:

„Ég held við verðum að gera okkur ljóst að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð. […] Einföld leið er að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir sem fara með umhverfis- og skipulagsmál til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi.“

Þetta eru orð frá manni sem hefur mikla reynslu í þessu umhverfi og ég held að þetta séu orð sem við þingmenn þurfum hið minnsta að taka til skoðunar, hvort þetta sé leið sem er skynsamleg til að reyna að ná aftur þeirri sátt sem Alþingi taldi sig hafa náð með setningu laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Til að loka þessum kafla úr jólaávarpi orkumálastjóra þá segir þar, með leyfi forseta:

„Friðlýsing án tímamarka er í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um sín mál á hverjum tíma.“

Og af því að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé er hér í salnum og hlustar andaktugur á, þá veit ég að það er í gangi vinna um endurskoðun lagaverksins í kringum umhverfismat. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þeirri vinnu vindur fram og hver niðurstaða hennar verður.

Þá kem ég að samhengi hlutanna sem mér finnst skipta máli í þessu öllu. Fyrir áramót var mælt fyrir frumvarpi um hálendisþjóðgarð og í því skipta mögulegir orkunýtingarkostir gríðarlega miklu máli. Þess vegna hélt ég því til haga og benti á, og hafði svo sem gert það áður, að ég teldi ótækt að hálendisþjóðgarður yrði ræddur án þess að rammaáætlunin væri fram komin og samþykkt. Nú liggur hún fyrir og verður vísað til nefndar að þessari umræðu lokinni og mér sýnist á öllu að málið flækist ef eitthvað er nú um stundir í stað þess að við séum að nálgast einhverja lausn sem ýtir málum áfram. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi vinna sem er leidd af hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, um endurskoðun regluverksins, verði kannski lykillinn að því að leiða þennan ágreining um nálgunina í jörðu. Það getur auðvitað ekki verið þannig að mögulega orkunýtingarkosti sem lenda í verndarhluta áætlunarinnar megi aldrei nefna aftur en um kosti sem lenda í nýtingarflokki verði slegist fram í rauðan dauðann þegar kemur að áformum um framkvæmdir. Við getum ekki, sérstaklega þegar við horfum fram á aukna orkuþörf hér á landi, skilið við regluverkið þannig.

Ég vil bara ítreka það hér að það er auðvitað mikil vinna og að mörgu leyti áhugaverð fram undan í umhverfis- og samgöngunefnd en við verðum að leyfa okkur að skoða þetta mál með galopin augun, hvaða leiðir eru færar og bestar til þess að tryggja raforkuöryggi og að íslenskt samfélag og framleiðsla hér heima fyrir geti vaxið og dafnað og eflst. Við verðum ekki í þeirri stöðu að þurfa að úthluta, ef svo má segja, þegar framleiddri orku, sem til að mynda er notuð af einhverju stóriðjufyrirtækjanna sem hér eru starfandi, að tilteknir hópar vofi yfir með þórðargleðina alltumlykjandi og voni að einhver stóriðja landsins heltist úr lestinni og leggi upp laupana. Það er ekki góð leið. Það er svo margra hluta vegna ekki góð leið til að tryggja orkuframboð til lengri tíma. Við verðum að geta framleitt þá orku sem er nauðsynleg til að standa undir hagsæld í landinu og þar verðum við að horfa til miklu lengri tíma en eins eða tveggja kjörtímabila.

Með þeim orðum vil ég leggja þetta mál til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég hlakka mikið til að fjalla um það, m.a. með hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Jóni Gunnarssyni, sem kom hér í ræðu áðan, og Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni Vinstri grænna, sem kom í andsvar áðan og ég reikna með að hann leggi orð í belg áður en þessari umræðu er lokið. Ég ítreka að við þurfum að horfa á stóru myndina. Við getum ekki leyft okkur í stóru myndinni að loka til langs tíma á orkunýtingarkosti sem geta orðið okkur svo mikilvægir og svo nauðsynlegir fyrir framtíðarkynslóðir til að viðhalda hagsæld, uppbyggingu allra þeirra kerfa sem verðmætasköpun í atvinnulífinu stendur undir, hvort sem það er heilbrigðiskerfið eða menntakerfið. Út frá því eigum við að nálgast þetta. Við eigum ekki að nálgast þetta út frá einhverjum þröngum kreddum, án þess að ég sé að leggja umhverfisverndarsjónarmiðin þar undir, alls ekki. En við verðum að geta formað kerfi og nálgun þar sem hægt er að komast áfram með þau verkefni sem ætlunin er að koma á koppinn.