151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og hv. þingmaður nefndi hef ég lagt áherslu á það að ég telji að lög um mat á umhverfisáhrifum hafi sannað sig ágætlega. Við eigum þá bara að laga þau til, laga þá ágalla sem menn telja vera á þeim þannig að þau virki. En ég tel að með þessum málflutningi, með þessu máli, sé verið að flækja málin. Hv. þingmaður nefndi línulagnir og annað slíkt. Ég veit ekki betur en að sveitarfélögin þurfi að veita framkvæmdaleyfi fyrir línulögnum. Það er nú einu sinni þannig. Við þekkjum það t.d. hér suður með sjó, með mál sem varðar línulögn á Suðurnesjum og styr hefur staðið um. Þar finnst mér kristallast vinnubrögð hins opinbera þegar kemur að línulögnum, það er vaðið áfram án þess að ræða málin við heimamenn en það skiptir verulegu máli að við náum sátt um þessi mál við þá. Ég held að hv. þingmaður sé alveg sammála mér í því.

Hv. þingmaður nefndi kerfisáætlun sem er ekki hér til umfjöllunar en ég vil einungis segja að ég tel fullkomlega eðlilegt að haft sé gott samráð við sveitarfélögin. Hvers vegna hefur t.d. ekki tekist að ná samningum varðandi nýju lögnina til Suðurnesja í ein sjö ár, hv. þingmaður? Það er vegna þess að það hefur ekki verið neinn samningsvilji af hálfu hins opinbera og stjórnvöld voru gerð afturreka með eignarnám og annað slíkt, einfaldlega vegna slælegra vinnubragða og málið situr enn fast. Á sama tíma er orkuöryggi til Suðurnesja ábótavant. (Forseti hringir.) Það er mjög brýnt að bæta úr því og við sáum það sérstaklega í tengslum við þá jarðskjálfta eða jarðhræringar (Forseti hringir.) sem urðu á síðasta ári, (Forseti hringir.) og eru að sjálfsögðu áhyggjuefni, að ekki er nægilegt varaafl fyrir Suðurnesin ef aðallínan færi út.