151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Kerfisáætlun er að sjálfsögðu afar mikilvæg og lýtur að orkuöryggi allra landsmanna. Það myndi skapa ákveðna óreiðu ef öll sveitarfélög ætluðu að hafa ákvörðunarvald í þeim efnum. Það þarf náttúrlega að vera ákveðin yfirstjórn yfir því, ég held að það átti sig allir á því. Minn málflutningur hefur einfaldlega verið sá að það hefur skort samstarfsvilja af hálfu hins opinbera gagnvart sveitarfélögunum. Það mál kristallast akkúrat í því máli sem ég nefndi hér áðan á Suðurnesjum sem hv. þingmaður þekkir og ætti að setja sig vel inn í vegna þess að hann hefur ákveðið að bjóða sig fram í næstu kosningum í Suðurkjördæmi. Ég óska honum til hamingju með framboðið en ég held að hann verði að átta sig á því að það er mjög stór þáttur, hvað Suðurnesin varðar, að þessi mál verði leyst. Það hefur ríkisvaldinu ekki tekist, því miður. Þetta mál hefur verið fast í sjö ár og þar kristallast kannski það sem ég sagði, að það er ekkert samráð. Mér finnst svolítið langt seilst hjá hv. þingmanni að tengja þetta mál við kerfisáætlun, sem er ekki það sem við ræðum hér. En ég hvet hv. þingmann sérstaklega til þess að skoða þessi mál vegna þess að hann minntist á þetta, kerfisáætlun og línulagnir, og þá sérstaklega með tilliti til Suðurnesja. Kannski verður hann sá þingmaður sem getur leyst þetta mál með Suðurnesin, að loks verði hægt að leggja þessa lögn sem stjórnvöldum hefur ekki tekist að gera eða ná neinni sátt um við sveitarfélögin — sem er ákaflega dapurlegt vegna þess að orkuafhendingaröryggi á Suðurnesjum er í húfi, eins og við þekkjum öll. Ef til þess kæmi að jarðhræringar yrðu á þessu svæði og línulagnir færu í sundur, eins og t.d. í Svartsengi, væri þetta svæði að stórum hluta orkulaust. (Forseti hringir.) Þá verður náttúrlega að vera einhver lína sem ber allt það magn sem þarf til Suðurnesja en hún er ekki til staðar í dag.