151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[16:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt áætluninni verði tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í áætluninni skal, í samræmi við markmið laga nr. 48/2011, lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.

Í áætluninni eru lagðir til í orkunýtingarflokk sjö vatnsaflskostir, átta jarðvarmakostir og einn vindorkukostur. Í biðflokk eru lagðir fram 23 vatnsaflskostir, 14 kostir í nýtingu jarðvarma og eitt vindorkusvæði. Í verndarflokk eru lagðir til 18 vatnsaflskostir og átta jarðvarmakostir.

Það er mikilvægt í vinnu við rammaáætlun að hún sé vel samþætt við aðrar stefnumótandi stefnur ríkisvaldsins á sem flestum sviðum og hefur stundum kannski skort á að þannig sé það í ýmsum málum. Í samhengi rammaáætlunar erum við nú að ræða hálendisþjóðgarð, við erum nýlega komin með orkustefnu til ársins 2050 sem var unnin af þverpólitískri nefnd allra stjórnmálaflokka og síðan höfum við rætt hér í dag vindorkuna og hæstv. umhverfisráðherra boðaði frumvarp í samráðsgáttina í næstu viku sem snýr að því. Þetta þarf allt að samþætta þegar horft er til langrar framtíðar. Og ef við tökum kerfisáætlun Landsnets og meginflutningskerfi raforku þá erum við að horfa til kannski 60, 70, 80 ára í uppbyggingu þess kerfis þannig að hér þarf líka að hugsa til langs tíma.

Helsta gagnrýnin á þessa áætlun sem hér er lögð fram er þáttur sem hefur mikið verið ræddur og snýr að vinnuhópi 3 og 4, annars vegar samfélagsleg áhrif áætlunarinnar og hins vegar efnahagsleg áhrif á svæði. Auðvitað er það sorglegt í öllu þessu ferli að kannski var ekki skilað nógu góðu plaggi eftir þessa vinnu því að vinna þessara tveggja hópa kláraðist ekki. Það kom fram hjá þeim sem unnu í þeim hópum að það var vegna tímaleysis. Það er líka sorglegt að undanfarin ár hafi ekki verið nýtt betur, að tíminn sem gafst hafi ekki verið nýttur til að bæta úr vanköntum á áætluninni vegna þess að töluvert hefur verið beðið eftir því að við tækjum þetta mál fyrir á þingi.

Við þurfum líka að hafa í huga, þegar við ræðum þessi mál, að íslensk stjórnvöld eru með þá stefnu að við verðum kolefnishlutlaus árið 2040 og þá þarf náttúrlega að tryggja orku til þess að þau markmið náist. Ég held að það sé almennt talað um að það þurfi 1.000–1.200 MW til að kolefnishlutleysi náist þannig að við nýtum innlenda orkugjafa til að knýja hlutina og það snýr mest að samgöngum í landinu. Það er kannski þriðja áætlunin, þriðju orkuskiptin. Fyrst var það rafvæðing landsins og síðan þegar við fórum að hita upp húsin okkar með jarðvarma, heitu vatni; þriðju orkuskiptin eru þá vegna bílanna okkar og annarra samgöngutækja.

Ef við setjum 1.000–1.200 MW í samhengi við aflgetu virkjana í landinu þá er framleiðslan eða aflgetan um 2.700–2.800 MW í dag, um 2.000 í vatnsafli og 700–800 í jarðvarma. 1.000–1.200 MW er því töluvert. Það þarf þá að auka framleiðslu raforku í landinu um 35–40%, með hugarreikningi, þannig að við erum að fást við stórt verkefni. Það þarf að huga að því hvernig við ætlum að ná því fram og mikilvægt að þetta sé samþætt við aðrar áætlanir sem voru kannski ekki komnar fram þegar þessi vinna var unnin.

Síðan vil ég benda á í þessu samhengi að íslenska raforkukerfið er eyjarekstur og því tel ég mikilvægt að umhverfis- og samgöngunefnd taki það inn í sína vinnu við rammaáætlun. Í skýrslu forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi sem var útbýtt á þingi á mánudaginn, samkvæmt skýrslubeiðni sem við Sjálfstæðismenn settum fram í febrúar í fyrra, kemur fram, með leyfi forseta:

„Raforkukerfið er eyja og ótengt kerfum annarra landa, ólíkt því sem gerist annars staðar í Evrópu þar sem raforkuflutningskerfi eru víða samtengd. Því er ekki unnt að grípa til innflutnings á raforku komi upp tímabundinn skortur á ákveðnum svæðum.“

Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við staðsetjum þá orkuvinnslustaði í landinu þar sem við ætlum að framleiða orkuna til lengri tíma, þ.e. að aflstöðvum sé vel dreift um landið þegar við lítum á öryggið í landinu í heild sinni. Við erum að styrkja meginflutningskerfi raforku til þess að bæta úr þessu en einnig þarf að hafa í huga, að mínu viti, að vel sé staðið að dreifingu virkjana í landinu. Með leyfi forseta, vitna ég aftur í skýrslu forsætisráðherra en þar stendur á bls. 7:

„Líta ber heildstætt á öryggi raforkukerfisins hér á landi og því er varasamt að skilgreina einstaka þætti raforkukerfisins, þ.e. raforkuflutning, vinnslu og dreifingu, út frá þjóðaröryggi og aðra ekki. Er þannig sérstaklega fjallað um orkukerfið í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum ríkisins. Virkni allra þessara þátta er forsenda þess að tryggja afhendingaröryggi raforku hér á landi.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að stjórnkerfi raforkukerfisins hefur sérstöðu og er forsenda þess að unnt sé að tryggja afhendingaröryggi raforku. Misbrestur á því getur haft áhrif á alla samfélagsinnviði þar sem þeir eru allir háðir raforku á einhvern hátt. Þá getur veruleg skerðing á raforku til stórnotenda haft í för með sér mjög alvarleg áhrif á hagkerfið, þar sem hún getur valdið miklu fjárhagslegu tjóni fyrir samfélagið og viðkomandi fyrirtæki.“

Almennt virðist vera í skýrslunni, sem kom á mánudaginn, talað um meginflutningskerfi raforku, stóra flutningskerfið, byggðalínuna, en ég tel að í allri þessari vinnu þurfi að skoða dreifingu aflstöðva landsins, það sé líka skoðað í stóra samhenginu.

Öll þau mál sem snúa að raforku á Íslandi eru okkur geysilega mikilvæg. Það er hvergi framleidd meiri orka á einstakling í heiminum en á Íslandi og í landinu sem er í öðru sæti, í Noregi, er framleidd helmingi minni orka á hvert mannsbarn en á Íslandi. Í öllu efnahagslegu samhengi og öðru samhengi hlutanna er raforkuvinnsla, flutningur og nýting hennar í atvinnulífi og til að bæta lífskjör og allt sem snýr að því, okkur geysilega mikilvæg. Þetta er því stórt mál og við eigum að leggja mikla vinnu í þetta.

Ég vil bara ítreka rétt í lokin, út frá öryggisþáttum og þjóðaröryggi, að ég tel mjög mikilvægt að í vinnu hv. umhverfis- og samgönguáætlunar við rammaáætlun verði það skoðað að koma þessum þáttum inn sem snúa að aflgetu, öryggi og dreifingu aflstöðva um allt landið.