151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

almannavarnir.

443. mál
[16:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, sem felur í sér borgaralega skyldu opinberra starfsmanna, bæði ríkis og sveitarfélaga, til að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Þetta er sams konar frumvarp og ég flutti í mars 2020 vegna Covid-19 faraldursins og var samþykkt til bráðabirgða með gildistíma til ársloka 2020. Bráðabirgðaákvæðið er því fallið úr gildi en nauðsynlegt er að setja það að nýju til bráðabirgða, a.m.k. til ársloka 2021, með vísan til þeirrar óvissu sem enn er uppi vegna Covid-19 faraldursins.

Ákvæðið hefur reynst opinberum aðilum einstaklega vel. Það felur í sér að heimilt er að breyta starfsskyldum tímabundið og flytja starfsmenn tímabundið á milli starfsstöðva og stofnana til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður. Þó er starfsmaður undanþeginn framangreindum skyldum sé heilsufari hans eða annarra sem hann ber ábyrgð á svo háttað að öryggi og heilsu hans eða þeirra sé stefnt í sérstaka hættu.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja nægilegt svigrúm opinberra aðila svo að þeir geti veitt þjónustu í almannaþágu á hættustundu. Þannig verður hægt að fara fram á breytingu á starfsskyldum og jafnvel vinnustöðum viðkomandi starfsmanna eftir þörfum. Með opinberum aðilum samkvæmt frumvarpinu er átt við ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu.

Hættustund í skilningi þessa ákvæðis er sú stund þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir. Ríkislögreglustjóri hefur þá lýst yfir neyðarstigi sem er hæsta almannavarnastig samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga eða hefur lýst yfir að neyðarstig sé yfirvofandi. Þess má geta að aldrei áður hefur neyðarstigi almannavarna verið lýst yfir fyrr en nú í baráttunni við farsóttina Covid-19.

Ýmsir opinberir aðilar hafa markvisst unnið að uppfærslu undanfarið á viðbragðsáætlunum, m.a. vegna snjóflóða og skriðufalla, eldgosahættu og farsóttarinnar, en í mörgum viðbragðsáætlunum er tekið fram að heimilt sé að færa fólk á milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang. Við þá vinnu hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila til að færa starfsmenn til í starfi eftir þörfum við slíkar aðstæður. Slík heimild þarf að vera til staðar óháð efni viðbragðsáætlana þar sem oft getur þurft að taka ákvarðanir hratt og örugglega á þessu stigi almannavarna.

Þess ber að geta að samkvæmt 19. gr. laga um almannavarnir í dag er borgaraleg skylda allra á aldrinum 18–65 ára á hættustundu að gegna, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna. Eðlilegt er að einnig sé fyrir hendi vægara úrræði eða heimild til að mannauður opinberra aðila sé virkjaður og komi laun fyrir. Opinberir aðilar geti þannig nýtt mannauð sinn á óvenjulegum tímum sem þessum í þau verkefni sem eru mikilvægust hverju sinni.

Með samþykkt frumvarpsins munu starfsskyldur starfsmanna ná til þess að sinna þeim borgaralegu skyldum á hættustundu sem þeim er falið á grundvelli þessarar heimildar. Markmiðið er fyrst og fremst að tryggja öryggi almennings og geta veitt nauðsynlega þjónustu við slíkar aðstæður.

Úrræðið hefur reynst vel og hefur þetta verið eitt af atriðunum sem hafa skipt máli fyrir góðan árangur Íslands í að bregðast við þessum vágesti. Dómsmálaráðuneytinu barst erindi, bæði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkislögreglustjóra, þar sem eindregið var óskað eftir því að þetta bráðabirgðaákvæði fengi gildi að nýju. Dæmi um tímabundin úrræði sem krefjast sveigjanleika eru m.a. samhæfingarstöð almannavarna vegna Covid og rakningateymi almannavarna og sóttvarnalæknis.

Í raun má segja að sveigjanleiki almannakerfisins byggist upp að hluta á bráðabirgðaákvæði II í almannavarnalögum. Í því getur t.d. falist að gera fyrirvaralaust breytingar á vaktaskipulagi til að tryggja nauðsynlega hólfun, til að tryggja að nauðsynleg viðbragðsþjónusta, löggæsla og almannavarnaviðbúnaður leggist ekki niður vegna smita í ákveðnum starfseiningum eða þegar taka þarf ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við kjarasamningsbundin réttindi eins og kosningar og vaktaskipulag meðal starfsmanna samkvæmt því ferli sem þar er kveðið á um. Í þannig stöðu leikur umrætt bráðabirgðaákvæði lykilhlutverk. Án þess eru ekki til staðar lagaheimildir til að bregðast hratt við aðstæðum, tryggja nauðsynlegt öryggi og tryggja órofinn rekstur mikilvægra innviða í samræmi við ákvæði almannavarna. Sveitarfélögin telja mjög mikilvægt að ákvæðið sé framlengt þar sem það hefur reynst mikilvægt í að halda úti nauðsynlegri starfsemi hjá sveitarfélögum, þar á meðal á vettvangi, í velferðarþjónustu og í skólum. Starfsfólk er þannig fært á milli starfsstöðva, fær önnur verkefni en það var ráðið til og breytingar verða á skipulagi, en aðeins á hættustundu samkvæmt skilgreiningu almannavarnalaga. Ítrekað er að starfsfólk fær í öllum tilfellum fullgreidd laun í samræmi við sína kjarasamninga og launin eru hækkuð ef starfsfólk er fært í starf í hærri launaflokki. Í sumum tilfellum eru starfsmenn að fá full laun jafnvel þótt vinnuframlag sé minna en ráðningarsamningur gerir ráð fyrir, en úrræðið er því aðeins notað ef tilefni er til í þau störf er njóta forgangs á þessum tímum.

Með samþykkt frumvarpsins verður opinberum aðilum tryggð heimildin aftur til að bregðast við hratt og örugglega á neyðarstigi almannavarna og geta ráðstafað starfsmönnum sínum í verkefni er njóta forgangs. Mun það hafa mikilvæg og jákvæð áhrif til að sporna við hættu og veita þá nauðsynlegu þjónustu sem samfélagið þarfnast hverju sinni.

Við undirbúning frumvarpsins í mars 2020 var unnið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið og einnig haft samband við helstu forsvarsmenn samtaka starfsmanna opinberra aðila. Nú er áfram byggt á því samráði en frumvarpið er endurflutt að ósk opinberra aðila sem gegna mikilvægu hlutverki þegar almannavarnaástand ríkir á hættustigi eða neyðarstigi almannavarna.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.