151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikla og ígrundaða ræðu. Þetta er ekki stórt skref sem hér er stigið með það að markmiði, eins og ég skil hæstv. ráðherra, að afnema verðtryggingu en svo langt sem það nær ber auðvitað að fagna því. Sjálfur hef ég flutt frumvarp þess efnis og ég veit að hæstv. ráðherra hefur áður flutt frumvarp þess efnis sem ekki náði fram að ganga. Ég hefði kannski leyft mér að vonast til að hæstv. ráðherra gengi fram í þessu máli af meiri metnaði gagnvart hinu eiginlega viðfangsefni sem er að losa okkur við verðtrygginguna. Við erum eina landið á byggðu bóli sem hefur þann hátt á að hafa lánakost af þessu tagi. Einhvern tímann þóttist Seðlabankinn hafa fundið það út að í Úrúgvæ eða einhvers staðar mætti finna eitthvað svipað.

Það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði að verðtryggingin væri ekki vandamál heldur verðbólgan. Verðbólgan er að sjálfsögðu vandamál en verðtryggingin er sjálfstætt vandamál vegna þess að henni fylgja svo mikil rangindi. Þetta er í raun og sanni áþekkt því að taka lán í erlendri mynt. Verðtryggða krónan og óverðtryggða krónan eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið. Það er ekki ætlast til þess að fólk fjármagni sitt húsnæði með erlendum lánum. En samt erum við með þennan kost hérna sem er að eðli til eins og um erlent lán væri að ræða vegna þess að fólk hefur ekki tekjur í erlendri mynt og fólk hefur ekki tekjur í verðtryggðum krónum heldur í nafnkrónum.

Það eru fjölmörg atriði sem ég vildi gjarnan spyrja um en ég vil ljúka þessu að sinni með því að spyrja: Af hverju er ráðherra svona hikandi við að stíga veigameiri skref (Forseti hringir.) ef hann vill raunverulega það sem hann segist vilja, þ.e. að afnema verðtrygginguna?