151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil halda því til haga að þetta er stærsta skref sem við höfum stigið, ef þetta verður samþykkt, til þess að þrengja að almennri notkun verðtryggingar í húsnæðislánum og neytendalánum. Þá er ég að vísa til síðustu áratuga. Þetta væri stærsta skrefið. Ég lít þannig á að við séum að stíga stórt skref þótt sumir vilji bara sjá þetta afgreitt út af borðinu. Af hverju ættum við ekki að gera það? Hér kemur í raun og veru upp það vandamál að við eigum of langa sögu of mikillar verðbólgu til að það sé raunhæft að geta tryggt aðgengi að löngum, og þá er ég að tala um kannski 30 ára, ég tala nú ekki um lengri, óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum. Það held ég að sé útilokað. Slíkur markaður er ekki til á Íslandi. Hann væri mögulega til með nokkuð löng óverðtryggð bréf, sérstaklega ef ríkissjóður gæfi út þokkalegt magn af slíkum bréfum. Þá væri mögulegt að leggja grunn að slíkum markaði en þó þannig að það þyrfti að byggja á breytilegum vöxtum. Í breytilegu vaxtaumhverfi, ef hér kæmi verðbólga og Seðlabankinn neyddist til að hækka vexti, gætu lántakar þurft að horfa fram á greiðslubyrði sem væri þeim hreinlega ofviða. Í því sambandi er ekkert ofboðslega langt síðan stýrivextir Seðlabankans nálguðust 20%. Það eru ekki nema tólf til þrettán ár síðan að stýrivextirnir voru vel yfir 10%, 12%, 18%. Hver yrði greiðslubyrði fólks af slíku láni? Hún yrði gríðarleg. (Forseti hringir.) Ég held því að þetta þurfi að gerast í áföngum. Það þarf að safna upp í trú markaðarins á því að við höfum búið þannig um hnútana á Íslandi (Forseti hringir.) að til lengri tíma séu verðbólguvæntingar heilbrigðar.