151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Verkefnið er að búa þannig um hnúta að þetta markmið geti náðst. Það er ekki nema þriggja tíma ferðalag til Kaupmannahafnar, svo að dæmi sé tekið, og allir Íslendingar sem þar hafa búið, þeir sem maður þekkir, ljúka lofsorði á húsnæðislánakerfið þar. Ræða hæstv. ráðherra var mjög góð, enda lauk ég lofsorði á hana, hún hefði með örlitlum breytingum verið ræða fyrir því að stíga miklu stærri skref en ráðherrann er að gera. Ég er á engan hátt að gera lítið úr því sem ráðherra er að gera hérna, en hann nefndi allt það sem máli skiptir. Hann nefndi í fyrsta lagi að öll skilyrði eru önnur. Við erum með fjármálamarkaði sem ekki voru til 1979 þegar verðtryggingin var tekin upp, bara óþekkjanlegt. Við erum með allt önnur efnahagsskilyrði og ráðherra rakti það af mikilli hind, það eru lágir vextir og þeir hafa verið lágir lengi. Hann nefndi að vextir hefðu farið upp í 18%, stýrivextir Seðlabankans, 2008 eða 2009, en þar er náttúrlega verið að vísa til alveg sérstakra aðstæðna. Hæstv. ráðherra nefndi líka hvað þyrfti að vera hér í hagstjórninni svo þessi skilyrði tækjust; ábyrg stefna í ríkisfjármálum, ábyrg stefna í launamálum opinberra starfsmanna og í þriðja lagi að vera ekki með einhverja fortíðarmúsík eins og þessa verðtryggingu sem öllum ber saman um, og ekki síst sérfræðingum Seðlabankans, að hefur mjög truflandi áhrif fyrir peningastefnuna sem þátt í hagstjórninni, þar á meðal að halda niðri verðbólgu. Þannig að ræðan var virkilega góð, en hann hefði alveg eins (Forseti hringir.) getað verið að tala fyrir því að afnema þetta. Ég vil bara nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða (Forseti hringir.) svo að við getum tekið upp norrænt kerfi í lánamálum eins og er (Forseti hringir.) til að mynda í Kaupmannahöfn þar sem eru lánastofnanir sérhæfðar á þessu sviði og fengist hefur mjög góð reynsla af.