151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé rétt að það er margt ágætt við norrænu húsnæðismarkaðina. Það hafa hins vegar komið upp alls konar viðfangsefni eða gallar, skulum við bara segja hreint út, á einstaka lánaformum. Það var t.d. orðið allt of algengt að fólk tæki lán án höfuðstólsafborgana og safnaði upp í einhvers konar kúlulán vegna fasteignakaupa, gríðarlegum skuldum. Síðan þegar áföll urðu á húsnæðismarkaði þá skuldaði fólk langt umfram virði húsnæðis. Það hefur þurft að glíma við alls konar verkefni á hverjum og einum þessara markaða. Vextir í Svíþjóð hafa t.d. verið ótrúlega lágir og fólk nýtur góðs af því þar. En þar sem við skerum okkur helst úr hópi Norðurlandanna er einmitt vinnumarkaðurinn. Ef við ættum að taka einhvern einn þátt sem hefur verið með mjög ólíkum hætti á Íslandi og á Norðurlöndunum á undanförnum árum, og það er nánast sama hversu mörg ár við lítum aftur í tímann, þá hafa laun á Íslandi hækkað langt, langt umfram það sem þar hefur gerst. Ég hef lengi sagt og segi það enn að íslenska vinnumarkaðsmódelið er gallað. Það hefur verið of lengi í endurskoðun, það er of mikil sundrung á vinnumarkaðnum og í allri umræðu um vinnumarkaðsmódelið.

Ég notaði tækifærið árið 2017 sem forsætisráðherra til að setja þetta sérstaklega á dagskrá í minni stefnuræðu. Þetta er einn af þáttunum sem ég tel að við verðum að ná utan um, þ.e. heildarendurskoðun vinnumarkaðslíkansins á Íslandi, einmitt til að færast nær því sem gerist á Norðurlöndunum svo að við náum tökum á öllum þáttum hagstjórnarinnar og tryggjum að þeir sem vettlingi geta valdið séu allir að toga í sömu átt. (Forseti hringir.) Það mun skapa betri og traustari forsendur fyrir því sem þingmaðurinn kallar eftir.