151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir ígrundaða ræðu eins og hún var kölluð hér áðan og var. Ég er á svipuðum nótum og hv. þm. Ólafur Ísleifsson að því leyti að ég velti fyrir mér hvort nú séu ekki aðstæður til að ganga lengra. Til að byrja með vil ég segja að ég styð frumvarpið en mér finnst að það geti mögulega gengið lengra. Áhrif þess eru mjög svipuð og frumvarps sem var lagt fram á 145. þingi, pælingin á bak við er mjög sambærileg. Þetta sýnist mér ganga örlítið lengra en ekki mikið. Ég skil rökin og ég er sammála hæstv. ráðherra um rökin fyrir því að gera þetta í skrefum. Ástæðan er sú, eftir því sem mér best skilst, að með því að afnema einfaldlega verðtryggingu á einu bretti þá myndi það valda þvílíkum straumhvörfum í hagkerfinu, og sér í lagi í bankakerfinu, að það gæti haft önnur óæskileg hliðaráhrif sem við viljum ekki, fyrir utan allar þær ágætu ástæður sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég get svo sem tekið undir þær, mínus eina sem varðar getu fólks, sem hefur lægri tekjur og ræður ekki við að taka óverðtryggð lán, til að taka húsnæðislán. Ég fer meira út í það í ræðu minni á eftir.

Ég vil sérstaklega vekja athygli hæstv. ráðherra á einu. Þegar fyrra frumvarpið var lagt fram 2016 þá var, samkvæmt greinargerð þess, mjög hátt hlutfall nýrra lána og útistandandi lána verðtryggt. Það hlutfall hefur lækkað gríðarlega mikið, sér í lagi þegar kemur að nýjum lánum og líka vegna þess að nú upp á síðkastið hefur fólk verið að endurfjármagna gríðarlega mikið með óverðtryggðum lánum, sem er mjög jákvætt að mínu mati. En það býr líka til það tækifæri að mínu mati að hægt sé að ganga lengra. Bæði er að vextirnir eru lægri núna en þeir voru 2016 og sömuleiðis eru verðtryggð lán fyrirferðarminni í eignasafni bankanna og í hagkerfinu í heild. Er það ekki ástæða til að ganga aðeins lengra, stíga aðeins stærra skref núna? Þó er ég í grunninn sammála hæstv. ráðherra um að við verðum að gera þetta í skrefum.