151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé í svo ótalmörgu, umfram það að höfuðstóll lána hækki ekki við verðbólgu, sem neytendur hafa hag af því að útrýma verðtryggingunni endanlega, sér í lagi verðtryggðum jafngreiðslulánum. Ég fer meira út í það í ræðu minni á eftir. Þegar fyrra frumvarpið var lagt fram vorum við í öðrum aðstæðum en núna. Ég tel nú að það hafi alveg verið tímabært á þeim tíma. Þetta er örlítið þrengra. Ég hygg að núna, þegar aðstæður hafa batnað og skapast ný tækifæri sem eru svo miklu stærri og betri en var 2016, sé tækifæri til að ganga aðeins lengra. Ég átta mig algerlega á punkti hæstv. ráðherra og var sjálfur að halda ræður um það á sínum tíma þegar ég aðhylltist verðtryggingu eða öllu heldur var á móti því að banna hana — ég hef skipt um skoðun síðan þá. En á móti kemur að því minna vægi sem verðtryggingin hefur í lánakerfinu okkar og meðal neytenda, því auðveldara er það fyrir Seðlabankann að beita sínum tækjum eins og hæstv. ráðherra fór yfir. Það þýðir líka að þegar eða ef það kemur verðbólga, einhver veruleg verðbólga, og Seðlabankinn neyðist þá auðvitað til að hækka vexti, verður þörfin miklu minni vegna þess að verðtryggingin er fyrirferðarminni í hagkerfinu. Auðvitað er þetta einhvers konar jafnvægislist, að reyna að gera þetta nógu hratt til að þetta gerist, nýta tækifærin þegar þau gefast en þó nógu hægt til þess, eins og hæstv. ráðherra fór yfir og með réttu að mínu mati, að við búum ekki til önnur vandamál fyrir aðra hópa eða jafnvel sama hópinn. Ég er alveg í sama liði og hæstv. ráðherra þar. En mér sýnist bara á gögnum málsins og sögunni, og miðað við frumvörpin tvö, þetta á 145. þingi og það sem hér er lagt fram, að nú sé kjörið tækifæri til að ganga aðeins lengra án þess að valda teljandi vandamálum á borð við þau sem hæstv. ráðherra benti annars réttilega á.