151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég styð þetta mál. Það var sú tíð að ég hélt hér ræður verðtryggingunni til varnar en síðan hef ég skipt um skoðun og er nú alfarið á móti henni. Ég er þó þeirrar skoðunar að það þurfi að afnema hana í skrefum og því miður ekki endilega stórum og eru ástæður fyrir því sem ég ætla að fara yfir aðeins seinna. En ég vil byrja á því að segja við áheyrendur sem hlusta á hinu rómaða interneti, eða hvar sem er annars staðar, að ef ég nota orð eða hugtök sem þeim þykir algerlega óskiljanleg þá eru þeir í góðum félagsskap meðal þessarar þjóðar. Það er reyndar ein forsendan fyrir því að ég vil að verðtryggð lán verði bönnuð eða í það minnsta ekki heimil sem neytendalán við fasteignakaup.

Þótt við teljum samningsfrelsið vera ákveðið grundvallaratriði og mjög mikilvægan rétt í viðskiptum almennt, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir í lok andsvars síns við mig áðan, er það samt háð því að þeir sem gera samninga á milli sín skilji hvaða samning þeir eru að gera. Það er af þeirri ástæðu sem við höfum ákveðna neytendavernd, bæði í lögum um almenn kaup og sölu og sömuleiðis í fjármálakerfinu og þegar neytendur gera fjármálagjörninga. Ef hinn almenni borgari ætlar, sem dæmi, að fjárfesta í hlutabréfum eða einhverju slíku þarf hann að átta sig á ákveðnum hlutum. Það er ákveðið námsefni sem er ætlast til þess að borgarinn kynni sér þannig að hann geti tekið upplýstar ákvarðanir, í það minnsta um hvaða áhættu hann tekur með gjörðum sínum. Það er forsenda frelsisins í fjármálum að mínu mati, virðulegi forseti, að fólk hafi greiðan, skýran og raunhæfan aðgang og raunverulegan skilning á gjörðum sínum til þess að það geti beitt vilja sínum í samræmi við hagsmuni. Í stuttu máli er sá raunveruleiki einfaldlega ekki til staðar þegar kemur að verðtryggðum fasteignalánum, enn síður þegar kemur að verðtryggðum jafngreiðslulánum og allra síst að lánum sem eru verðtryggð jafngreiðslulán í greiðslujöfnun. Ef þetta hugtak er áheyrendum algerlega óskiljanlegt er það mjög skiljanlegt.

Þessi tegund af lánum verður því flóknari eftir því sem meira bætist við af þessum orðum fyrir hinn almenna neytanda. Nú er tiltölulega lítið mál fyrir einhvern sem vinnur hér á Alþingi eða er bara áhugasamur um efnið að kynna sér allar þessar forsendur og hvað öll þessi hugtök þýða eins og ég hef gert og hæstv. ráðherra hefur gert og fólk sem vinnur hjá bönkunum hefur gert og fólk sem hefur kannski margsinnis farið í gegnum fasteignakaup hefur kannski gert. En hinn almenni borgari sem er bara að reyna að eignast þak yfir höfuðið er í mjög vondri stöðu til þess. Við þekkjum það öll sem höfum, ekki alltaf verið sérfræðingar í fasteignakaupum eða fasteignalánum, hvernig það er að ætla að skrifa undir margar blaðsíður af pínulitlu letri með alls konar formálum og skilyrðum og lagaklausum sem maður hefur ekki flett upp og mun ekki fletta upp, á meðan bankastarfsmaðurinn eða lánveitandinn trommar með puttunum og bíður eftir því að maður gefist upp á því að lesa í gegnum allt plaggið og bara skrifi undir eins og allir aðrir gera. Þetta eru aðstæður sem við þekkjum alveg. Þær eru mjög raunverulegar og við verðum að bera virðingu fyrir því að þegar fólk er að taka þessa ákvörðun í sínu lífi, um langstærstu fjárhagslegu skuldbindinguna og langstærstu fjárfestinguna sem langflest fólk gerir á lífsleiðinni, verður það að vera fullkomlega meðvitað um hvaða áhrif ákvarðanir þess hafa. Lögum samkvæmt, ef við ætlum að skrifa niður á blað hvað gerist, þá útskýra lánveitendur og starfsmenn bankanna þetta fyrir fólki og fólk, sem yfirleitt er haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öllum þessum orðum og þessu kerfi, hefur auðvitað hefur tilhneigingu til þess að telja sjálfu sér trú um að það skilji þetta betur en það gerir eða hreinlega hugsar með sér: Ja, það er nú búið að pæla svo mikið í þessu kerfi að þetta hlýtur í meginatriðum að vera í lagi. Hérna er lægri greiðslubyrði, hérna er nafnið mitt. Húrra, ég á íbúð. Þetta er algjörlega skiljanleg nálgun. Það er ekki við öðru að búast af hinum almenna borgara þegar kemur að því að taka fasteignalán.

Í því sambandi langar mig aðeins að nefna persónulega reynslu mína af því að tala um þetta við vini og vandamenn sem eru að íhuga eða eru í fasteignakaupum. Ég hef haft það á áhugasviði mínu að upplýsa fólk um það hvernig öll þessi lán virka. Ég hef bara skrýtinn áhuga á því. Hluti af ástæðunni fyrir því að ég hætti að geta varið þessi verðtryggðu lán er sú reynsla mín að næstum því enginn skilur þetta, jafnvel það sem fólki sem hefur skoðað þessi mál finnst einfalt, fólki eins og mér sem finnst þetta ekkert voðalega flókið lengur. En flestu fólki finnst þetta algjörlega óskiljanlegt og á erfitt með að skilja hugtök eins og vexti, bara vexti. Það er bara þrælflókið að fara í gegnum allt það með fólki hvers vegna munurinn á 3% og 5% vöxtum skiptir verulegu máli. Fólk er ekki vant því að 1 prósentustig til eða frá skipti hrikalegu máli í lífinu almennt. En það skiptir hrikalegu máli í fasteignaviðskiptum og fólk er lengi að átta sig á því hvers vegna. Þegar við bætum verðtryggingu ofan á þetta þarf fólk að fara að kynna sér hvernig verðbólgan virkar, hvernig hún hefur verið sögulega, hvers vegna hún hefur verið þannig sögulega og hvort og þá hvernig líkur séu á því að hún verði í náinni framtíð og hvað þá til 40 ára. Þetta er mikið álag, virðulegi forseti, fyrir hinn almenna borgara að kynna sér í þessum aðstæðum. Það er það bara.

Í stuttu máli tel ég neytendavernd í verðtryggðum fasteignalánum ómögulega. Þetta sést líka bara af umræðunni eftir hrun þegar fólk fór að lenda í verulegum vandræðum með lánin sín. Það fór að velta fyrir sér hvers vegna þetta væri svona og skildi ekkert í því að lánin hefðu hækkað þegar það lá alveg fyrir, alla vega í flestum tilfellum, að þau myndu hækka með verðbólgunni. Ég álít það bara borðleggjandi staðreynd, og móðgist fólk bara ef það vill, að almennt hefur fólk ekki skilið þessi lán. Og það er bara ekki nógu gott, alls ekki. Síðan bætum við ofan á verðtrygginguna fyrirbæri sem heitir jafngreiðslulán. Fyrir áheyrendur sem ekki skilja eða eru ekki sérfræðingar í þessu er munurinn á venjulegu láni, sem við skulum kalla svo, með jöfnum afborgunum, og jafngreiðsluláni er sá að jafngreiðslulánið virkar þannig að þú borgar alltaf það sama upp á krónu eða svo gott sem út lánstímann. Ef maður borgar 150.000 kall í næsta mánuði, þá borgar maður 150.000 kr. eftir 20 eða 30 eða 40 ár, að því gefnu að vextir haldist óbreyttir. Hin tegundin er þannig að þú borgar mest fyrst en lækkar höfuðstólinn alltaf jafn mikið og það þýðir að upphæðin sem þú greiðir lækkar með tímanum og að lokum verður hún mjög lág tala miðað við það sem var upprunalega. Þegar kemur að vali á milli jafnra afborgana og jafngreiðslu á óverðtryggðu láni þá er hægt að útskýra þetta fyrir fólki og það skilur það ef maður sýnir því töflu eða graf eða eitthvað því um líkt. En ef maður blandar hins vegar saman verðtryggingu og jafngreiðslu fær maður hugtak sem ég veit að stærðfræðingum og sérfræðingum þykir ónákvæmara en er í rauninni nákvæmara fyrir hinn almenna borgara, þ.e. að verðtryggð jafngreiðslulán eru einhvers konar tvöföld verðtrygging, einhvers konar ofurverðtrygging. Verðtryggt jafngreiðslulán er mun verra en verðtryggt lán með jöfnum afborgunum. Ég ætla ekki einu sinni út í greiðslujöfnunina, hún er það mikil steik. Sem betur eru fæstir með hana þessa dagana eftir því sem ég fæ best séð.

Af þessari ástæðu hygg ég að til að losna við þetta sé best að gera þetta í skrefum og byrja á því að losa okkur alfarið við verðtryggð jafngreiðslulán. Ef við erum bara með verðtryggð lán með jöfnum afborgunum erum við bæði búin að einfalda kerfið fyrir neytandann og losa okkur við þann hluta af verðtryggingunni sem gerir hana enn þá verri en hún annars er. Vitaskuld yrði það bara skref, lokamarkmiðið hlýtur að vera að losna alfarið við verðtryggingu en ég tel þetta gott markmið til að byrja með.

Þetta frumvarp tekur einmitt á verðtryggðum jafngreiðslulánum, en einungis að hluta. Það er því einungis hluti af hlutanum af lausninni. Jákvætt skref, vissulega, en ég hygg að það megi ganga lengra.

Einn galli við þetta frumvarp er að það flækir málin aðeins fyrir lántakandann, það er enn flóknara að átta sig á því hvað honum stendur til boða og hvers vegna. Hann þarf jafnvel að fara að spyrja sig spurninga um hvers vegna þetta standi einum til boða en ekki öðrum. Þá er kennslustundin sem þarf til að taka upplýsta ákvörðun orðin enn lengri og flóknari og, ef ég þekki fólk rétt, leiðinlegri.

Mér sýnist stefna í að ég fari í aðra ræðu til að fara yfir þetta allt jafn vel og þarf. En það er önnur ástæða fyrir því að við ættum að losa okkur við verðtryggingu á húsnæðislánum og hún er kerfislæg. Hún snýr í sjálfu sér ekki að sanngirni gagnvart lántakanum eða lánveitandanum ef út í það er farið, heldur að því að verðtryggingin og áhrif hennar í hagkerfinu eru margvísleg og mér vitandi alfarið neikvæð. Það er ekkert gott, það er ekkert sem verður betra við hagstjórn eða spálíkön eða fjárfestingarkosti við það að hafa verðtryggingu á þessum lánum nema hugsanlega fyrir bankana vegna þess að þeir þurfa minna að pæla í því hvernig eignasafnið þróast ef það verður mikil verðbólga. En það er ekki jákvæður kostur fyrir hagkerfið. Það er hugsanlega jákvætt fyrir bankana en það er ekki jákvætt fyrir hagstjórn eða til að reyna að skilja hvernig hagkerfið virkar eða að breyta reglunum þannig að eitthvert tæki verði skilvirkara.

Það leiðir mig að stýrivöxtum Seðlabankans sem eru tiltölulega óskilvirkt tæki á Íslandi þegar ekki eru fjármagnshöft við útlönd og við erum með verðtryggingu og við erum með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þetta er hinn eitraði kokteill, virðulegi forseti, ef eitthvað er, fyrir þetta tæki Seðlabankans sem eru stýrivextir. Þess vegna er svo ofboðslega jákvæð þróun að nú séu neytendur í gríðarlegum mæli að skipta yfir í óverðtryggð lán úr verðtryggðum lánum. Það er gríðarlega jákvæð þróun og býður upp á svo mörg tækifæri fyrir okkur hér til að ganga lengra í því að afnema verðtryggingu. Ástæðan verandi sú að því minna vægi sem verðtryggingin hefur, t.d. á eignasafn bankanna eða í hagkerfinu almennt, því minna rask verður við að afnema hana í stærri skrefum. Sömuleiðis er geta Seðlabankans, til að halda vöxtum lágum og til að þurfa síður að beita því tæki að hækka vexti, háð því þetta tæki Seðlabankans virki sem best. Það er algjörlega óumdeilt að það virkar hvað best þegar almenningur er með óverðtryggð lán. Það felur auðvitað í sér þá hættu, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir með réttu, að greiðslubyrðin, þ.e. hvað neytandinn borgar í hverjum mánuði, getur orðið verulega þung af óverðtryggðu láni ef vextir hækka mjög hratt. Miklu þyngri en af verðtryggðu láni. Munurinn er sá að „kostnaðurinn“ við óverðtryggða lánið lendir strax á neytandanum en kostnaður við verðtryggða lánið lendir í miklu meiri mæli á höfuðstólnum og er borgaður seinna. En það veldur samt tjóni fyrir lántakandann, það er bara ekki tjón sem hann þarf að takast á við akkúrat þann mánuðinn nema í formi hækkunar á greiðslubyrði, sem hækkar vissulega líka ef vaxtahækkunin er mikil en miklu minna en í óverðtryggðum lánum. Þar má búast við meiri vaxtahækkunum með verðbólgu vegna þess að einhvern veginn munu fjármálastofnanir verja sig.

Að lokum langar mig að koma inn á það sem hæstv. ráðherra nefndi, að sumir segðu að vandamálið væri ekki verðtryggingin heldur verðbólgan. Það er ákveðinn sannleikur í þessari fullyrðingu, virðulegi forseti, en ég myndi segja að eina leiðin til þess að sú röksemdafærsla gangi upp sé að gefa sér að okkur takist einhvern veginn að halda þessum sjálfstæða gjaldmiðli stöðugum í opnu útflutningshagkerfi. Með öðrum orðum, á meðan við erum með krónuna getum við ekki, að mínu mati, gert ráð fyrir því að halda verðbólgu í þvílíku lágmarki í svo langan tíma að verðtryggingin hætti að vera vandamálið sem hún er. Ég er sammála hv. þm. Ólafi Ísleifssyni í þeim efnum að verðtryggingin er sjálfstætt vandamál, alveg óháð því hvort okkur takist að halda stýrivöxtum áfram jafn lágum og þeir eru núna eða ekki.

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki tíma fyrir meira og ætla að íhuga hvort ég neyðist til að fara í aðra ræðu, ég ætla að sjá hvernig umræðan þróast. En að þessu sögðu þá styð ég málið óbreytt en beini því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að skoða möguleikana á því að ganga lengra í ljósi betri aðstæðna sem við búum við í dag en þegar sambærilegt frumvarp var lagt fram á 145. þingi árið 2016.